Íslenski boltinn

Aðeins Agla María lagt upp fleiri mörk en Andrea undanfarin tvö ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrea Rut Bjarnadóttir hefur verið iðin við að leggja upp mörk undanfarin ár.
Andrea Rut Bjarnadóttir hefur verið iðin við að leggja upp mörk undanfarin ár. vísir/hulda margrét

Landsliðskonan Agla María Albertsdóttir er eini leikmaðurinn í Pepsi Max-deild kvenna sem hefur lagt upp fleiri mörk en Þróttarinn ungi, Andrea Rut Bjarnadóttir, undanfarin tvö ár.

Agla María og Andrea hafa lagt upp flest mörk í Pepsi Max-deildinni í sumar, eða fimm hvor. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, samherji Öglu Maríu hjá Breiðabliki, og Fylkiskonan Sæunn Björnsdóttir koma næstar með fjórar stoðsendingar hvor.

Á síðasta tímabili var Agla María stoðsendingahæst í Pepsi Max-deildinni með þrettán slíkar. Sveindís Jane Jónsdóttir kom næst með átta stoðsendingar og þar á eftir kom Andrea með sjö.

Undanfarin tvö tímabil hefur þessi sautján ára kantmaður því gefið samtals tólf stoðsendingar. Andrea bíður enn eftir fyrsta marki sínu í efstu deild en skoraði í 4-0 sigri Þróttar á FH í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á föstudaginn.

Stoðsendingar Andreu í sumar má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Stoðsendingar Andreu Rutar í sumar

Andrea var byrjuð að spila með Þrótti í 1. deildinni sumarið 2017, þá á fermingaraldri. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún alls leikið 69 leiki fyrir Þrótt í deild og bikar og skorað tólf mörk.

Flestar stoðsendingar í Pepsi Max-deild kvenna 2020 og 2021

  • Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki - 17
  • Andrea Rut Bjarnadóttir, Þrótti - 12
  • Sveindís Jane Jónsdóttir, Breiðabliki - 8
  • Hlín Eiríksdóttir, Val - 5
  • Tiffany McCarty, Selfossi/Breiðabliki - 5
  • Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Breiðabliki - 5
  • Elín Metta Jensen, Val - 5

Þróttur er 4. sæti Pepsi Max-deildarinnar með fimmtán stig eftir tíu umferðir. Þróttarar enduðu í 5. sæti í fyrra, þá sem nýliðar.

Þróttur tekur á móti Val í 11. umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og hægt verður að sjá hann í beinni útsendingu á sjónvarpsvef Stöðvar 2.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×