Kominn með nóg af því að spila ekki körfu

Shawn Glover skoraði 30 stig fyrir Tindastól í kvöld og …
Shawn Glover skoraði 30 stig fyrir Tindastól í kvöld og Jakob Örn Sigurðarson reynir hér að stöðva hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls í úrvalsdeildinni í körfuknattleik karla, var ánægður með 104:101 sigur liðsins gegn KR í kvöld en sagði þó þörf á að bæta varnarleikinn.

„Ég er mjög ánægður með að hafa unnið leikinn, það er það sem maður finnur akkúrat núna. Mér fannst KR-ingarnir geggjaðir í þessum leik, með liðið sem þeir höfðu, eiginlega bara bakverði, þannig að mér fannst þeir gera eins vel og þeir gátu gert,“ sagði Baldur í samtali við mbl.is að leik loknum.

„Auðvitað þarf ég að horfa á okkur sjálfa, varnarleikurinn okkar þarf að vera betri af því að þeir skora á okkur 101 stig. KR voru góðir og við þurfum að bæta varnarleikinn er það sem ég tek út úr þessu,“ bætti hann við.

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls.
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baldur sagðist þó fyrst og fremst vera þakklátur fyrir það að fá að spila körfuknattleik á nýjan leik. „Það var gaman að spila körfu, mjög gaman að spila körfu, þakklátur fyrir að spila körfu, kominn með nóg af því að spila ekki körfu, bara geggjað.“

Mjög hátt tempó var í leiknum og mikið skorað. Aðspurður um hvort það hafi komið til vegna þess að svo langt var um liðið frá síðasta leik, heilir 100 dagar, var Baldur ekki alveg viss.

„Bæði lið ætluðu að spila hratt og þá varð þetta bara ákveðið svona… ég veit eiginlega ekki hvað, það var allavega verið að skora mikið í körfuna! Það er það sem gerðist í kvöld,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka