Unnur Björg á ellefta stórmótið í handbolta

Í Króatíu 2018. Hugrún Magnúsdóttir, Ólöf Jóhannsdóttir (Lóa) og Unnur …
Í Króatíu 2018. Hugrún Magnúsdóttir, Ólöf Jóhannsdóttir (Lóa) og Unnur Sigmarsdóttir hafa farið saman á mörg stórmót í handbolta.

Unnur Björg Sigmarsdóttir í Vestmannaeyjum er á leið á sitt 11. stórmót í handbolta til að styðja Ísland í riðlakeppni EM karla í Búdapest í Ungverjalandi. „Skemmtanagildið er gífurlegt og handbolti hefur alltaf verið mín ástríða,“ segir hún.

Evrópukeppnin hefst 13. janúar og daginn eftir verður fyrsti leikur Íslands, á móti Portúgal. Síðan er það Holland 16. janúar og Ungverjaland tveimur dögum síðar. Gert er ráð fyrir um 460 Íslendingum á pöllunum en um 360 hafa keypt miða í gegnum HSÍ. Um 60 manns fara frá Vestmannaeyjum og þar af er Unnur með tíu manna hóp.

Í Malmö 2020. Systurnar Unnur og Berglind með allt á …
Í Malmö 2020. Systurnar Unnur og Berglind með allt á hreinu.

„Fyrsta stórmót mitt var HM í Svíþjóð 1993 og síðan hefur þetta undið upp á sig með hverri keppninni, en við Vestmannaeyingar höfum haldið svolítið hópinn með Akureyringunum á þessum mótum,“ segir Unnur. Hún spilaði lengi með ÍBV og var þjálfari í 30 ár, stýrði meistaraflokki kvenna meðal annars til þriggja stórra titla 2003. „Ég var bara 16 ára, þegar ég byrjaði að þjálfa ásamt því að spila, en hætti þjálfun fyrir rúmum sex árum, fannst þá komið nóg.“ Þó ekki af handboltanum, því hún hefur haldið áfram að starfa fyrir deildina, hvort sem það er vegna vinnu við leiki karla og kvenna, fjáröflun eða annað. „Ég er alltaf tilbúin að aðstoða félagið mitt.“

Spilapeningar og þjófhræðsla

Skemmtunin er alltaf fyrir hendi á stórmótum, að sögn Unnar, en þau hafa verið ólík og upplifunin misjöfn. „Evrópukeppnin í Króatíu 2018 var sérstök,“ segir hún og nefnir sérstaklega öfluga og óvenjulega öryggisgæslu í höllunum, þar sem allt hafi verið tekið af fólki, jafnvel fánar og annað þvíumlíkt. „Svo mátti hver leita að sínu í körfum fyrir utan eftir leik.“ Á HM í Frakklandi 2017 hafi þjófhræðsla heimamanna vakið athygli. „Við þurftum að kaupa spilapeninga til að borga fyrir það sem við keyptum á leiksvæðinu í Metz!“ Einnig sé mjög minnisstætt, þegar Danir spiluðu ekki allan íslenska þjóðsönginn á EM í Álaborg 2014. „Áhorfendur tóku þá bara við og sungu þjóðsönginn til enda. Mögnuð stund.“ En mótin í Þýskalandi standi upp úr hvað allt skipulag og markaðssetningu varðar. „Þjóðverjarnir kunna þetta allt.“

Eyjamenn voru í æfingaferð á Spáni þegar HM fór þar fram 2013, og segir Unnur að riðlakeppnin í Sevilla sé ein eftirminnilegasta keppnin. „Við vorum eiginlega einu Íslendingarnir á svæðinu, en þegar Vestmannaeyingar koma saman er alltaf mikið stuð. Við fórum í búningabúð þar sem allir keyptu sér búninga, sem tónuðu við landsliðsbúninginn. Síðan mættu kóngar og drottningar og ég veit ekki hvað á leikina og við létum vel í okkur heyra.“

Unnur var á leið með Herjólfi til Eyja þegar Ísland tryggði sig áfram í milliriðil á HM í Þýskalandi 2007. „Um kvöldið ákváðu vinir mínir að fara til Þýskalands svo ég tók Herjólf til baka morguninn eftir og við út án þess að hafa miða á leikina né gistingu en allt reddaðist. Það var svakalega skemmtileg ferð.“ Nú verði erfiðast að velja tilheyrandi búninga og andlitsfarða til að taka með til Ungverjalands. „Ég á sitt lítið af hverju, til dæmis tvo íslenska landsliðskjóla, fjóra búninga, hatta og fleira. Einu sinni vorum við með hnausþykkar hárkollur og vorum að kafna úr hita svo þær verða eftir en ég finn eitthvað við hæfi. Búningarnir eru stór hluti af prógramminu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert