Segir Rauðagerðismálið umfangsmikið klúður

Frá gæsluvarðhaldsaðgerðum lögreglu.
Frá gæsluvarðhaldsaðgerðum lögreglu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steinbergur Finnbogason, lögmaður Antons Kristins Þórarinssonar, segir Rauðagerðismálið „eitt umfangsmesta klúður í sögu“ lögreglunnar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. 

Anton Kristinn var einn af þeim sem var grunaður í málinu og var hann hnepptur í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna þess en var síðan sleppt og var aldrei ákærður.

Steinbergur Finnbogason.
Steinbergur Finnbogason.

Málið snýst um morðið á Arm­ando Beqirai, þann 13. fe­brú­ar síðastliðinn í Rauðagerði. Angj­el­in Sterkaj, sem játaði sök í málinu, var dæmdur í sextán ára fangelsi í gær fyrir morðið. Þrír aðrir sakborningar í málinu voru sýknaðir.

Steinbergur bendir á að lögreglan hafi á sínum tíma sagt að um hafi verið að ræða umfangsmestu rannsókn á starfstíma lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í gær er vart hægt að túlka öðruvísi en að einnig sé um að ræða eitt umfangsmesta klúður í sögu embættisins. Ekki eingöngu vegna sýknudómanna sem féllu, heldur einnig vegna augljósrar vandlætingar dómarans sem telur vinnubrögð lögreglunnar ámælisverð,“ skrifar Steinbergur. 

Segir að lögreglan hafi sett fram órökstuddar samsæriskenningar

Þar minnist hann þess þegar lögreglan fékk samþykkta kröfu um að fella niður skipun hans sem verjanda Antons. 

Hann var síðan með klækjabrögðum sviptur lögmanni sínum og verjanda, vegna meintrar vitnaskyldu sem hafði enga þýðingu, eins og sýknudómarnir vitna um.

Fjórtán manns fengu réttarstöðu sakbornings í Rauðagerðismálinu, af þeim voru níu settir í gæsluvarðhald og sjö úrskurðaðir í farbann. 

„Lögreglan lét ekki duga að láta leiðast út á villigötur í rannsókninni en lagði að auki fram skýrslu til dómsins með órökstuddum samsæriskenningum um skipulagða morðaðför,“ skrifar Steinbergur.

„Héraðsdómur afþakkar þetta „sérálit“, sem hann dæmir brot á hlutlægnisskyldu og segir vinnubrögðin ámælisverð.Þá vekur líka furðu að lögreglan hafi í margar vikur vitað um vopnið í höndum þess sem nú hefur verið dæmdur fyrir morðið í Rauðagerði.“

Lögreglan hafi valdið fólkinu alvarlegum miska

Steinbergur dregur hæfi lögreglunnar stórlega í efa. 

Hún hefur orðið ber að því eina ferðina enn að brjóta á réttindum fjölmargra einstaklinga, gera þá að sakborningum, hneppa í gæsluvarðhald og valda þeim alvarlegum miska með glannalegum yfirlýsingum og margvíslegum öðrum hætti,“ skrifar Steinbergur og jafnframt:

„Einfalda verkaskiptingin sem héraðsdómurinn var að minna lögregluna á í dómi gærdagsins er að lögreglan á að rannsaka mál til þess að leiða hið rétta í ljós. Ákærusvið lögreglunnar og saksóknari taka síðan við og ákæra ef tilefni þykir til.

Dómstólar úrskurða að lokum um sekt eða sýknu og taka ákvörðun. Þetta er ekki flókin verkaskipting en e.t.v. er engu að síður ástæða til þess að árétta hana á símenntunarnámskeiðum fyrir stjórnendur lögreglunnar – ef einhver slík eru þá haldin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert