Kannski hefði maður átt að hleypa þessu upp fyrr

Karen Helga Díönudóttir, leikmaður Selfoss, með boltann í leiknum í …
Karen Helga Díönudóttir, leikmaður Selfoss, með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss, var stoltur af liði sínu þrátt fyrir tap, 29:26, gegn ÍBV í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta í Laugardalshöll í kvöld.

„Ég er bara drullusvekktur. Við byrjum leikinn ágætlega en það var þarna kafli sem að skilur á milli. Þá vorum við að gera mistökin sem við máttum alls ekki gera.“

Það var báðum megin við hálfleikinn sem ÍBV náði upp forskoti sem varð mest níu mörk.

„Þær hertu vörnina hjá sér en mér fannst við bara gera einföld mistök. Við vorum ekki að spila kerfin okkar eins og við viljum gera, vorum meira að þvinga eitthvað en að fá boltann til að flæða og þá fóru þær að skora í bakið á okkur. Við vorum líka að láta reka okkur klaufalega út af, sem var óþarfi.

Mér fannst hugarfarið gott. Við komum til baka. Leikurinn var nánast farinn frá okkur í byrjun seinni hálfleiks en við finnum þá allavega kraft til að koma til baka og laga stöðuna í staðinn fyrir að leggjast flatar.“

Selfoss minnkaði muninn mest niður í þrjú mörk og vantaði ekki mikið upp á að þetta yrði að leik.

„Kannski hefði maður bara átt að hleypa þessu upp fyrr og ef leikurinn hefði verið örlítið lengri hefðum við kannski komist nær þeim. En þetta spilaðist bara svona, einhverjir myndu kannski segja að þetta gefi ekki rétta mynd af leiknum en ég held, yfir 60 mínútur, að þetta sé nærri lagi. Liðið mitt stóð sig vel og við vorum að spila á móti frábæru liði. Þær eru búnar að koma hérna áður og eiga fullt af reynslu inni hjá okkur. Við erum að koma hérna í fyrsta skipti, flestar, og mér fannst við standa okkur frábærlega á mörgum sviðum.“

Eitt af því sem hóf endurkomu Selfyssingar var útspil Eyþórs að taka Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur úr umferð. Þegar henni var skipt af velli fóru Selfyssingar að taka Sunnu Jónsdóttur úr umferð. Er það eitthvað sem Eyþór hefði mátt gera fyrr?

„Eftir á, þá getur maður spáð í svona. Við prófuðum þetta á móti þeim þegar við spiluðum við þær síðast og steinlágum. Þannig er þetta bara, stundum virkar þetta og stundum ekki. Ég fór í þetta þegar voru svona 15-17 mínútur eftir og jú, jú, kannski hefði ég átt að byrja seinni þannig en ég bara veit það ekki.“

Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss.
Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert