Guðmundur úr leik eftir góða byrjun

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er úr leik.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson er úr leik. Ljósmynd/seth@golf.is

Guðmundur Ágúst Kristjánsson nær ekki í gegnum niðurskurðinn á opna Austurríska mótinu sem haldið er af Evrópu- og Áskorendamótaröðinni en hann kláraði annan hringinn í dag. Þá er Haraldur Franklín Magnús í vondri stöðu en hann er að leika hringinn þegar þetta er skrifað.

Guðmundur fór virkilega vel af stað í gær og lék fyrsta hringinn á tveimur höggum undir pari, alls 70 höggum, og var jafn í 30. sæti eftir daginn. Það fór hins vegar allt í baklás hjá honum í dag, hann fékk fjóra fugla en einnig fjóra skolla og tvo tvöfalda skolla og lék hringinn á alls 77 höggum eða fimm yfir pari. Hann er sem stendur jafn í 102. sæti en um sjötíu kylfingar komast í gegnum niðurskurðinn.

Haraldur Franklín átti slæman fyrsta hring, fékk fimm skolla og tvo tvöfalda og lauk hringnum á 81 höggi eða níu yfir pari. Þegar þetta er skrifað hefur hann leikið fyrstu fimm holurnar á öðrum hring, fengið tvo skolla og einn fugl og er jafn í 139. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert