„Þeir voru í köðlunum stóran hluta leiksins“

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks. Eggert Jóhannesson

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, sagðist í samtali við mbl.is vera ánægður með leik sinna manna eftir dramatískt jafntefli við Víking R. í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld, 2:2.

„Þetta horfir við mér þannig að mér fannst við vera mikið betri aðilinn allan leikinn og þessi tvö mörk voru ekkert minna en við áttum skilið en við gáfum þeim tvö mörk í fyrri hálfleik sem gerði fjallið bratt að klífa. Mér fannst svo gæðamunurinn og formið koma í ljós undir lokin og þetta var það minnsta sem við áttum skilið. Mér fannst við vera mikið betri aðilinn og eiga að vinna þennan leik, það gefur okkur byr undir báða vængi.“

Ef Breiðablik hefði tapað þessum leik þá hefði forysta Víkinga verið komin í átta stig. Óskar vildi meina að fréttaritari væri að horfa of mikið í stigasöfnunina.

„Ég held þú einblínir aðeins of mikið á stigasöfnunina sem slíka. Það sem við tökum úr þessu er að við uppskerum eins og við sáðum, við uppskárum árangur erfiðisins. Við héldum endalaust áfram og hömruðum á virkisvegginn með spýtunni þar til stíflan brast. Það er frammistaðan og karakterinn sem við tökum pottþétt með okkur í næstu leiki.

Ég trúi ekki öðru en að Víkingum líði illa eftir þennan leik vitandi að þeir voru í köðlunum stóran hluta leiksins. Þeir vita að við erum andandi ofan í hálsmálið á þeim.“

Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkings, fékk rautt spjald undir lok leiks eftir að hann og Óskar höfðu farið í öskurkeppni á hliðarlínunni.

„Hann var eitthvað að lesa mér pistilinn sem er bara ekkert mál. Það er bara hiti í þessu og það urðu einhver handalögmál eftir leik. Það er mikill hiti og mikið undir, það er rígur á milli þessara liða og mikil ástríða þannig að svona getur gerst. Vonandi leggja menn þetta svo bara að baki og fara í næsta leik. Það er stutt í næsta leik þannig við getum ekkert verið að velta okkur upp úr þessum leik, við þurfum að fara að einbeita okkur að bikarleiknum á móti FH.“

Það voru 1.915 áhorfendur sem mættu á þennan leik og sagði Óskar að leikurinn hefði verið frábær auglýsing fyrir íslenskan fótbolta.

„Ég held að þessi leikur hafi verið frábær auglýsing fyrir íslenskan fótbolta, mér fannst þetta vera góður leikur og auðvitað frábært að fá hátt í tvö þúsund manns á völlinn. Við viljum auðvtað alltaf fá fleiri og vonandi koma fleiri á næsta leik. Það hjálpaði að veðrið var gott í dag, það hefur nú ekki verið neitt sérstakt undanfarið og kannski ekkert spennandi að fara á völlinn. En í kvöld fengum við frábært veður, frábæra umgjörð, frábæran leik og ekkert minna heldur en endirinn sem við áttum skilið.“ sagði Óskar Hrafn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert