Ól níbura í Marokkó

Móður og börnum heilsast vel.
Móður og börnum heilsast vel. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Kona frá Malí ól níbura í Marokkó í gær. Öll níu börnin eru við góða heilsu, að sögn ríkisstjórnar Malís. Yfirvöld í Marokkó eiga þó enn eftir að staðfesta þennan sjaldgæfa viðburð.

Ríkisstjórn Malís ákvað að senda hina 25 ára Halimu Cisse með flugi frá ríkinu fátæka í vesturhluta Afríku til Marokkós svo að hún fengi betri læknisþjónustu. Upphaflega var talið að hún gengi með sjöbura.

Afar sjaldgæft er að konur gangi með sjöbura og hvað þá níbura.

Fimm stúlkur og fjórir drengir

Rachid Koudhari, talsmaður heilbrigðisráðuneytis Marokkó, kvaðst ekkert hafa heyrt um að slík fjölburafæðing hefði átt sér stað á sjúkrahúsi í landinu.

Heilbrigðisráðuneyti Malís sagði aftur á móti í yfirlýsingu að Cisse hefði eignast fimm stúlkur og fjóra drengi eftir keisaraskurð.

„Móðurinni og börnunum hefur heilsast vel fram að þessu,“ sagði Fanta Siby, heilbrigðisráðherra Malís, við AFP, og bætti við að malískur læknir sem fylgdi Cisse til Marokkó hefði látið henni upplýsingarnar í té. Þau eru væntanleg aftur heim eftir nokkrar vikur, bætti Siby við.

Læknar höfðu verið með áhyggjur af heilsu Cisse, auk þess sem óttast var um lífslíkur barnanna. Í ómskoðun bæði í Malí og Marokkó leit út fyrir að Cisse ætti von á sjö börnum.

Siby óskaði læknateymunum bæði frá Malí og Marokkó til hamingju með fagmennskuna sem þau sýndu. Hún hefði skipt sköpum í öllu ferlinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert