Ætla að hefla og fylla í verstu kaflana fljótlega

Rigningar og umferð eru fljót að setja mark sitt á …
Rigningar og umferð eru fljót að setja mark sitt á malarvegi. Holur og drullupollar eru víða á Eyrarfjallsvegi.

„Eyrarfjallsvegur er svolítið slæmur núna. Menn veigruðu sér við að fara af stað fyrir síðustu helgi til að hefla hann út af rigningarspánni. Þeir eru að fara af stað, vonandi í vikunni, með heflun á öllum veginum. Einnig á að bæta í malarslitlagið á verstu köflunum til að ná tökum á þessu fyrir veturinn,“ sagði Bjarni Stefánsson, deildarstjóri umsjónardeildar suðursvæðis Vegagerðarinnar.

Miklar holur og drullupollar hafa gert þeim lífið leitt sem átt hafa leið um Eyrarfjallsveg (460) í Kjós að undanförnu. Um er að ræða sveitaveg sem liggur frá Hvalfjarðarvegi (47) og í kringum Eyrarfjallið. Hann er með malarlagi og þjónar bændum og búaliði á svæðinu og eins sumarbústaðafólki. Bjarni segir aðspurður að Eyrarfjallsvegurinn sé ekki þyngri í viðhaldi en aðrir malarvegir.

„Þessir malarvegir geta verið erfiðir ef tíðin er þannig, þegar mikil rigning fer saman við umferð, þá getur þetta verið erfitt,“ sagði Bjarni. Hann segir að rigningartíðin í haust hafi gert mönnum erfitt fyrir því erfitt sé að hefla malarvegina á meðan það rignir sem mest. „Menn reyna að gera sitt besta núna til að vinna þetta upp.“

Meðalfellsvegur í sömu sveit er klæddur bundnu slitlagi. Ekki er á dagskrá, alla vega ekki í bráð, að setja slíka klæðningu á Eyrarfjallsveginn, að sögn Bjarna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert