Haukur bestur á gamla heimavellinum

Haukur Helgi Pálsson í leik með Andorra.
Haukur Helgi Pálsson í leik með Andorra. Ljósmynd/EuroCup

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, var besti leikmaður Andorra í dag þegar liðið sótti hans gamla félag, Unics Kazan, heim í Rússlandi í Evrópubikarnum.

Unics vann leikinn, 85:63, og er með fullt hús stiga eftir fimm umferðir af sex í riðlinum en Rússarnir höfðu þegar tryggt sér efsta sætið og sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Eftir að staðan var 56:49 að þremur leikhlutum loknum missti lið Andorra gjörsamlega móðinn í þeim fjórða og Rússarnir stungu af.

Haukur var langstigahæstur í liði Andorra með 18 stig, öll í þremur fyrstu leikhlutunum, og var sá eini sem náði tveggja stafa tölu. Hann tók auk þess fimm fráköst og átti eina stoðsendingu. Hann lék jafnframt næstmest allra í liðinu eða í tæpar 24 mínútur. 

Andorra er í gríðarlega harðri baráttu við Gran Canaria og slóvenska liðið Mornar Bar um sæti í átta liða úrslitunum, en lokaumferð riðilsins fer fram í næstu viku. Andorra á þá heimaleik við Mornar Bar á meðan Gran Canaria tekur á móti Unics Kazan. Andorra og Gran Canaria eru með fjögur stig en Mornar Bar tvö stig. Andorra þarf að vinna Slóvenana og treysta á að Gran Canaria leggi ekki Rússana að velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert