16 sigrar Phoenix í röð – Embiid sneri aftur

Joel Embiid átti stórleik í endurkomunni.
Joel Embiid átti stórleik í endurkomunni. AFP

Phoenix Suns vann sterkan 113:107 útisigur gegn Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og hefur nú unnið 16 leiki í röð í deildinni.

Phoenix er þar með aðeins einum leik frá því að jafna sinn besta árangur í deildinni þegar kemur að fjölda sigra í röð, 17 talsins, sem liðið afrekaði tímabilið 2006/2007.

Devin Booker var stigahæstur hjá Phoenix með 30 stig og Chris Paul gerði 22 stig.

Stigahæstur í leiknum var hins vegar Kevin Durant, en 39 stig hans nægðu ekki til sigurs að þessu sinni.

Phoenix er nú búið að vinna 17 af fyrstu 20 leikjum sínum í deildinni á tímabilinu. Aðeins Golden State Warriors er með betri árangur, 17 sigra í fyrstu 19 leikjum sínum.

Kamerúnska tröllið Joel Embiid sneri aftur í lið Philadelphia 76ers eftir að hafa verið frá undanfarið vegna kórónuveirusmits.

Embiid lét ekki sitt eftir liggja og náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði ein 42 stig og tók 14 fráköst að auki í grátlegu 120:121-tapi gegn Minnesota Timberwolves eftir tvíframlengdan leik.

D’Angelo Russell var stigahæstur í liði Minnesota og Karl-Anthony Towns náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 28 stig og tók tíu fráköst.

Alls fóru átta leikir fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Brooklyn – Phoenix 107:113

Philadelphia – Minnesota 120:121 (2x frl.)

Atlanta – New York 90:99

Cleveland – Orlando 105:92

Chicago – Miami – 104:107

Houston – Charlotte 146:143

Dallas – Washington 114:120

Utah – New Orleans 127:105

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert