Bólusetningarskylda samþykkt í Austurríki

Frá og með 1. febrúar er skylda að vera bólusettur …
Frá og með 1. febrúar er skylda að vera bólusettur í Austurríki. AFP

Austurríska þingið hefur samþykkt lög um bólusetningarskyldu, fyrst landa í Evrópu. Þeir sem eru 18 ára og eldri verða því að vera bólusettir annars geta þeir fengið háa sekt. CNN greinir frá.

Lögin taka gildi 1. febrúar en ekki verður athugað hvort íbúar Austurríkis hafi fylgt lögunum fyrr en 15. mars. Frá og með þeim tíma geta þeir sem eru óbólusettir og eru ekki undanþegnir bólusetningarskyldu, átt það á hættu að greiða 600 evrur í sekt eða tæplega 90.000 krónur.

Þeir sem hafa nýlega fengið kórónuveirusmit eru undanþegnir bólusetningarskyldunni í 180 daga frá þeim degi sem þeir greindust með Covid-19 á PCR-prófi.

Nýju lögin gilda til 31. janúar 2024 og koma til framkvæmda í áföngum, að sögn heilbrigðisráðuneytisins. Sérhvert austurrískt heimili mun fá bréf sem útskýrir reglurnar. 

137 greiddu atkvæði með frumvarpinu en 33 á móti. Umræður á þingi tóku sjö klukkustundir áður en atkvæðagreiðsla fór fram.

Hámarkssekt verður 520.000 krónur

Þegar fram líða stundir mun sérhver óbólusettur einstaklingar eiga yfir höfði sér hámarkssekt upp á 3.600 evrur, rúmlega 520.000 krónur, allt að fjórum sinnum á ári séu þeir ekki á bóluefnaskrá á úthlutuðum bólusetningardegi.

Yfirvöld geta fallið frá sektinni ef einstaklingur lætur bólusetja sig innan tveggja vikna frá því að tilkynning um sekt berst.

Aðgerðum austurrískra stjórnvalda mótmælt fyrr í mánuðinum í Vínarborg.
Aðgerðum austurrískra stjórnvalda mótmælt fyrr í mánuðinum í Vínarborg. AFP

Frumvarpið um bólusetningarskylduna var lagt fram í nóvember í þeim tilgangi að stemma stigu við útbreiðslu fimmtu bylgju faraldursins. Á þeim tíma var landið með lægsta hlutfall bólusettra í Evrópusambandinu. Bólusetningarhlutfall landsins hefur síðan aukist í 71,7% sem er hærra en meðaltal sambandsins.

Kynntu einnig bólusetningarlottó

Austurríska ríkisstjórnin kynnti einnig í dag lottó í þeim tilgangi að fá fólk til að fara í bólusetningu. Íbúar Austurríkis munu fá einn happdrættismiða fyrir hverja sprautu sem þeir hafa fengið. Þríbólusettir myndu þá fá þrjá miða en tíundi hverjum miða fylgja 500 evrur eða um 73.000 krónur að sögn Karls Nehammer, kanslara Austurríkis. Líkurnar eru því ansi góðar.

„Satt að segja höfum við eyrnamerkt allt að 1 milljarð evra í bólusetningarlottóið sem byggist á verðlaunum og hvatningu,“ sagði Karl Nehammer kanslari Austurríkis á blaðamannafundi nokkrum klukkustundum áður en atkvæðagreiðslan fór fram á þinginu. „Ég tel að það sé fullkomlega réttlætanlegt að eyða þessum peningum," sagði hann.

Varakanslari Austurríkis Werner Kogler og kanslarinn Karl Nehammer fyrr í …
Varakanslari Austurríkis Werner Kogler og kanslarinn Karl Nehammer fyrr í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert