Twitterhakkarinn yfirheyrður

Victor Gevers heldur því fram að hann hafi komist inn …
Victor Gevers heldur því fram að hann hafi komist inn á Twitterreikning Donalds Trump. AFP

Hollenska lögreglan hefur nú yfirheyrt manninn sem segist hafa komist inn á twitterreikning Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í síðasta mánuði, en hann sætir rannsókn hjá saksóknaraembættinu þar í landi. 

Victor Gevers heldur því fram að hann hafi komist inn á reikninginn með því að giska á lykilorð forsetans, en það hafi verið „MAGA2020!,“ sem er vísun í slagorð forsetans „Make America Great Again“.

Skrifstofa forsetans neitar því að Gevers hafi komist inn á reikninginn og Twitter segist ekki hafa séð nein merki um að tekist hafi að hakka hann. Gevers segist þó búa yfir frekari sönnunargögnum sem styðji mál hans, en hann hefur ekki svipt hulunni af þeim enn.

Á skjáskoti sem Victor Gevers birti virðist hann geta breytt …
Á skjáskoti sem Victor Gevers birti virðist hann geta breytt nafninu á Twitteraðgangi Trumps.

Sá sem kæmist inn á twitterreikning Trumps gæti t.d. séð og sent einkaskilaboð undir nafni forsetans og jafnvel halað niður öllu því sem hann hefur birt og sent, þ.m.t. myndum og skilaboðum. Gevers segist þó ekki hafa breytt neinu á reikningnum.

Talsmaður hollenska saksóknaraembættisins staðfesti að rannsókn stæði yfir á málinu, og að hún væri „sjálfstæð hollensk rannsókn“ sem væri ekki byggð á beiðni frá Bandaríkjunum.

Ef saksóknari telur að það sem Gevers gerði stangist á við lög gæti hann verið dæmdur í allt að fjögurra ára fangelsi.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert