Bandaríkin fögnuðu eftir magnaðan úrslitaleik

Leikmenn Bandaríkjanna fögnuðu vel í leikslok.
Leikmenn Bandaríkjanna fögnuðu vel í leikslok. Ljósmynd/USMNT

Bandaríkin urðu í nótt fyrstu Þjóðadeildarmeistarar karla í fótbolta í Mið- og Norður-Ameríku. Bandaríkin höfðu betur gegn Mexíkó eftir magnaðan og framlengdan úrslitaleik, 3:2. Leikið var í Denver í Bandaríkjunum. 

Jesús Corona kom Mexíkó yfir strax á 2. mínútu en Giovanni Reyna jafnaði á 27. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1. Diego Lainez kom Mexíkó aftur yfir á 79. mínútu en aftur jöfnuðu Bandaríkjamenn, nú á 82. mínútu með marki frá Weston McKennie. 

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 2:2 og því þurfti að framlengja. Á 114. mínútu dró til tíðinda því Christian Pulisic, leikmaður Chelsea, náði í vítaspyrnu sem hann skoraði sjálfur úr. 

Dramatíkin var ekki búin því á 120. mínútu fékk Mexíkó vítaspyrnu. Andrés Guardado steig á punktinn en varamarkmaðurinn Ethan Horvath sá við honum og Bandaríkjamenn fögnuðu sætum sigri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert