Egyptaland vann eftir tvíframlengdan leik

Egyptar kræktu í sjöunda sætið.
Egyptar kræktu í sjöunda sætið. AFP/Mikael Fritzon

Egyptar sigruðu Ungverja í leiknum um sjöunda sætið, 36:35, eftir tvíframlengdan leik á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Svíþjóð í dag. 

Egyptarnir voru mun sterkari til að byrja með og skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins. Er leið á hálfleikinn jók Egyptaland aðeins forskot sitt og var sex mörkum yfir, 17:11 er flautað var til hálfleiks. 

Ungverjarnir komu sterkari út í síðari hálfleik og minnkuðu muninn hægt og rólega. Er stutt var eftir af leiknum komst Egyptaland fjórum mörkum yfir, 28:28, og öll von virtist úti fyrir Ungverjaland. Evrópuliðið setti hinsvegar næstu fjögur mörk leiksins, jafnaði metin og tryggði sér framlengingu. 

Fyrri framlengingin var hnífjöfn og þurfti aðra til að ráða úrslitum. Þar var aftur jafnt á milli liðanna en undir blálokin voru Egyptar sterkari og unnu eins marks sigur, 36:35, og lenda því í sjöunda sæti heimsmeistaramótsins. 

Ali Mohamed var langmarkahæstur í liði Egypta með 12 mörk. Á eftir honum komu Ahmed Mohamed og Omar Elwakil með fimm hvor. Richard Bodo og Mate Lekai voru markahæstir í liði Ungverjalands með sjö hvor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert