Ríkið greiði Skeljungi um 450 milljónir

Skeljungur hf. hafði betur gegn íslenska ríkinu fyrir Landsrétti. Þarf ríkið að greiða fyrirtækinu um 450 milljónir króna með vöxtum.

Skeljungur taldi að flutningsjöfnunargjald, sem lagt var á fyrirtækið árin 2016 til 2019, hafi verið ólögmætt, þar sem fjárhæð gjaldsins hafi ekki verið fastákveðin, heldur hafi Byggðastofnun verið falið að ákveða upphæðina.

Áður en málið rataði til Landsréttar hafði Héraðsdómur Reykjavíkur sýknað ríkið af kröfum Skeljungs. Talið var að vegna eðlis gjaldsins gæti fjárhæð verið mjög breytileg og fyrirsjáanlegt að örðugt gæti verið að mæla sérstaklega fyrir um ákveðnar fjárhæðir í lögunum. Því hafi stjórnvöldum í tilviki Skeljungs ekki verið veitt of víðtækt vald hvað varðar skattlagningu þessara gjalda.

Slíkt framsal skattlagningarvalds ólögmætt 

Á þessar forsendur féllst Landsréttur hins vegar ekki. Í dómi Landsréttar var bent á að fjárhæð flutningsjöfnunargjalds, samkvæmt lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, var ekki fastákveðin, heldur hafi Byggðastofnun verið falið að ákveða gjaldið. Samkvæmt lögunum skyldi fjárhæð gjaldsins miðast við að tekjur af því nægðu til að greiða flutningskostnað á olíuvörum. Stjórn innflutningssjóðs olíuvara var falið að úrskurða um hvað teldist til flutningskostnaðar.

Lögin veittu því stjórnvöldum vald til að ákvarða meginatriði skattlagningarinnar en í stjórnarskránni er lagt bann við svo almennu framsali skattlagningarvalds til stjórnvalda. Því var gjaldtakan ólögmæt. Þar með féllst Landsréttur á kröfu Skeljungs og var íslenska ríkinu gert að greiða 448.604.159 kr. með vöxtum. Þá var ríkinu gert að greiða Skeljungi eina milljón króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert