Körfubolti

NBA dagsins:  NBA hefur aldrei séð svona „tandurhreinan“ þrennuleik áður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 James Harden náði sögulegri frammistöðu með liði Brooklyn Nets í NBA-deildinni í nótt.
 James Harden náði sögulegri frammistöðu með liði Brooklyn Nets í NBA-deildinni í nótt. Getty/Ronald Cortes

James Harden náði sinni sjöundu þrennu í búningi Brooklyn Nets í nótt þegar Brooklyn Nets vann 124-113 sigur á San Antonio Spurs í framlengdum leik. Það var þó eitt mjög sögulegt við þessa þrennu.

Harden var með 30 stig, 15 stoðsendingar og 14 fráköst sem eru tölur sem hafa sést áður en það sem enginn annar hafði náð er að Harden tapaði á sama tíma ekki einum einasta bolta.

Harden varð fyrsti leikmaðurinn í NBA, síðan farið var að halda utan um tapaða bolta á 1977-78 tímabilinu, sem nær að minnsta kosti 30 stigum, 15 stoðsendingum og 10 fráköstum án þess að tapa bolta í leiknum.

Klippa: NBA dagsins (frá 1. mars 2021)

Þegar liðsfélagi hans Kyrie Irving var spurður út í frammistöðuna þá svaraði hann léttur að fólk gæti bara farið að venjast svona tölum frá kappanum.

Brooklyn Nets liðið hefur unnið níu af síðustu tíu leikjum sínum og lítur mjög vel út í Austurdeildinni.

Luka Doncic hjá Dallas Mavericks og Nikola Jokic hjá Denver Nugets vantaði báða aðeins eina stoðsendingu upp á að gera slíkt hið sama. Topplið Utah Jazz tapaði í New Orleans.

Luka Doncic var með 33 stig, 19 fráköst og 9 stoðsendingar þegar Dallas Mavericks vann 130-124 sigur á Orlandi Magic. Nikola Jokic var jafnstutt frá þrennunni og Doncic en hann var með 39 stig, 14 fráköst og 9 stoðsendingar þegar Denver Nuggets vann 118-112 sigur á Chicago Bulls.

Zion Williamson átti mjög flottan leik þegar New Orleans Pelicans vann topplið Utah Jazz 129-124. Williamson endaði með 26 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar, Brandon Ingram skoraði 26 stig og Lonzo Ball bætti við 23 stigum, 7 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessum leikjum sem og flottustu tilþrif næturinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×