Dýrmætur sigur Þróttara á Selfossi

Selfoss og Þróttur eigast við í dag.
Selfoss og Þróttur eigast við í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þróttur vann gríðarlega mikilvægan sigur á Selfyssingum í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í dag. Lokatölur urðu 1:3 og Þróttur lyftir sér örlítið upp frá neðstu liðunum.

Það var hellirigning á Selfossi á meðan á leiknum stóð og Þróttarar höfðu vindinn í bakið í fyrri hálfleik. Selfyssingar hafa misst Önnu Björk Kristjánsdóttur og Hólmfríði Magnúsdóttur erlendis og Dagný Brynjarsdóttir er meidd og það var einfaldlega of mikill missir fyrir Selfyssinga í dag.

Alfreð Elías Jóhannsson tefldi fram þriggja manna vörn sem stóð sig vel án leiðtogans Önnu Maríu en án Dagnýjar gekk Selfyssingum illa að stjórna umferðinni á miðjunni. 

Þróttarar voru einfaldlega betri í fyrri hálfleik. Mættu ákveðnar til leiks og ætluðu greinilega að ná í stig í harðri botnbaráttu í dag. Selfoss fékk fyrsta færið á 15. mínútu þegar Friðrika Arnardóttir varði skalla Unnar Dóru Bergsdóttur frábærlega, en annars létu Selfyssingar ekkert að sér kveða fyrstu 45 mínúturnar.

Mary Vignola braut ísinn á 26. mínútu þegar hún fékk sendingu inn fyrir frá Stephanie Ribiero og kláraði færið vel. Þróttur hélt áfram að sækja og Ribiero bætti við öðru marki á 43. mínútu eftir skógarhlaup markmanns Selfyssinga. Þriðja mark Þróttar kom á lokamínútu fyrri hálfleiks og var ennþá skrautlegra, en Vignola sendi þá boltann fyrir markið frá vinstri og fyrirgjöfin endaði í fjærhorninu.

Leikurinn breyttist í seinni hálfleik. Selfyssingar voru mikið með boltann en það vantaði talsvert bit í sóknarleikinn hjá þeim í dag. Þeir fengu þó nokkur hálffæri og á 65. mínútu náði Tiffany McCarty að pota boltanum í netið af stuttu færi eftir að Barbára Sól Gísladóttir hafði skallað í þverslána.

Selfyssingar runnu út á tíma í leiknum. Í stöðunni 1:3 hefði annað mark frá Selfossliðinu eflaust breytt taktinum í leiknum. Þróttarar voru skipulagðir en þeir tóku reyndar mikla sénsa í uppspili frá markmanni og sýndu veikleika í vörninni sem Selfyssingar náðu ekki að nýta sér.

Það hefur verið talað um að það sé erfitt fyrir andstæðingana að koma á Selfoss og sækja stig. Sú hefur alls ekki verið raunin í sumar því Selfyssingar hafa aðeins unnið tvo heimaleiki og tapað fimm í sumar. Þeir verða að verja virkið sitt betur og útivallaárangur þeirra vínrauðu er mun betri. 

Þegar upp er staðið þá unnu Þróttarar vel fyrir stigunum á Selfossi í dag og þetta er risastór sigur fyrir framhaldið hjá þeim. Þróttarar eru áfram í fallbaráttu en þeir hafa tekið fjögur stig af Selfyssingum í sumar og það er vel gert.

Selfoss 1:3 Þróttur R. opna loka
90. mín. Unnur Dóra Bergsdóttir (Selfoss) á skot sem er varið Unnur í frábæru færi en skýtur beint á Friðriku.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert