Áhorfendur í öllum EM-borgum - Þjóðverjar samt smeykir

Á Wembley í London fara fram sjö leikir á EM, …
Á Wembley í London fara fram sjö leikir á EM, þar af báðir undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikurinn. AFP

Borgirnar tólf sem sinna gestgjafahlutverkinu í úrslitakeppni Evrópumóts karla í sumar hafa allar staðfest að þær muni geta hleypt áhorfendum inn á vellina í mótsleikjunum.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, setti borgunum þá úrslitakosti að mótið yrði að fara fram með áhorfendur á pöllunum, annars yrðu leikirnir fluttir annað. Frestur til að staðfesta slíkt átti að renna út á morgun.

Martin Allen, framkvæmdastjóri keppninnar hjá UEFA, staðfesti við TV3 Sport í Danmörku í dag að allar tólf borgirnar væru klárar í slaginn.

Hins vegar liggur ekki fyrir hversu margir áhorfendur mega vera á hverjum velli. Þá er enn sem komið er fyrst og fremst um viljayfirlýsingar að ræða og heilbrigðisyfirvöld geta enn sett einstökum borgum stólinn fyrir dyrnar.

Þýska knattspyrnusambandið hefur sérstaklega áhyggjur af leikjunum í München og hefur biðlað sérstaklega til borgaryfirvalda þar að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að í það minnsta einhverjir áhorfendur geti mætt á Allianz-leikvanginn þar sem Þjóðverjar eiga að spila alla þrjá leiki sína í F-riðli, gegn Frakklandi, Portúgal og Ungverjalandi, dagana 15. til 23. júní.

Riðlarnir og borgirnar á EM eru sem hér segir:

A-riðill í Róm og Bakú: Ítalía, Tyrkland, Wales og Sviss.

B-riðill í Kaupmannahöfn og Pétursborg: Danmörk, Rússland, Finnland og Belgía.

C-riðill í Amsterdam og Búkarest: Holland, Úkraína, Austurríki og Norður-Makedónía.

D-riðill í Glasgow og London: England, Skotland, Króatía og Tékkland.

E-riðill í Bilbao og Dublin: Spánn, Svíþjóð, Pólland og Slóvakía.

F-riðill í München og Búdapest: Þýskaland, Ungverjaland, Frakkland og Portúgal.

Sextán liða úrslit fara fram í Bilbao, London, Búkarest, Kaupmannahöfn, Glasgow, Dublin, Búdapest og Amsterdam.

Átta liða úrslit fara fram í München, Pétursborg, Róm og Bakú.

Undanúrslit og úrslitaleikur fara fram í London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert