Vantar kannski drápseðlið

Hólmar Örn Eyjólfsson er fyrirliði Vals.
Hólmar Örn Eyjólfsson er fyrirliði Vals. mbl.is/Eyþór Árnason

Hólmar Örn Eyjólfsson, varnarmaður og fyrirliði Vals, sagði að það hefði verið gríðarlega svekkjandi að fá á sig jöfnunarmarkið gegn Fram á lokamínútunum á Hlíðarenda í kvöld, í Bestu deild karla í fótbolta.

Viktor Bjarki Daðason jafnaði þá metin fyrir Framara, 1:1, eftir að allt hafði stefnt í sigur Valsmanna.

„Við vorum orðnir dálítið varnarsinnaðir undir lok leiksins. Mér fannst við hafa fulla stjórn á leiknum og gekk vel. Mér fannst við verjast ágætlega og þeir sköpuðu sér ekki mikið. En svo kom þessi aukaspyrna þar sem við áttum að gera betur. Framarar voru bara einbeittari og náðu að skora," sagði Hólmar við mbl.is eftir leikinn.

Er þetta ekki gamla sagan, 1:0 er engin forysta og hún getur verið fljót að fara?

Patrick Pedersen sækir að marki Fram en hann skoraði mark …
Patrick Pedersen sækir að marki Fram en hann skoraði mark Valsmanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Jú, það er nefnilega málið. Við fengum mörg föst leikatriði sem við hefðum átt að geta nýtt betur í leiknum, þó við skoruðum reyndar markið úr horni. En þetta er fyrst og fremst gríðarlega svekkjandi hérna á heimavelli með fullt af fólki í stúkunni. Þetta voru þrjú stig sem við ætlum svo sannarlega að fá eftir að hafa tapað nokkrum í síðustu leikjum. Nú þurfum við að komast yfir þetta og vera 100 prósent klárir í Blikana í næsta leik.“

Þið hafið aðeins náð að skora þetta eina mark í síðustu þremur leikjum í deildinni. Verður það ekki að teljast ansi lítil uppskera hjá svona vel mönnuðu liði?

„Já, það er óhætt að segja það. Mér finnst við skapa okkur fullt af góðum stöðum og komum okkur í færin. Ég veit ekki hvort okkur vanti kannski þetta drápseðli, að gera út um leikina, eins og við gerðum gegn FH í bikarnum. Þar skoruðum við þrjú og héldum hreinu, sem er það sem við eigum að standa fyrir. Sá leikur er okkar besti hingað til. Þessa vegna er gríðarlega svekkjandi að ná ekki að fylgja því eftir í dag.

En við erum allir saman í þessu sem lið og berum allir ábyrgð á því að mörkin og stigin séu ekki orðin fleiri," sagði Hólmar Örn Eyjólfsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert