Handbolti

Kristján Örn markahæstur er PAUC kastaði frá sér sigrinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristján Örn skoraði fimm mörk þegar PAUC kastaði frá sér sigrinum í kvöld.
Kristján Örn skoraði fimm mörk þegar PAUC kastaði frá sér sigrinum í kvöld. PAUC

Þrír Íslendingar voru í eldlínunni í leikjum kvöldsins í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld. Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo unnu níu marka sigur gegn Cocks, Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í PAUC gerðu klaufalegt jafntefli gegn Gorenje og Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten gerðu jafntefli þegar liðið tók á móti Nimes.

Bjarki Már og félagar hans í Lemgo tóku forystuna snemma á heimavelli gegn Cocks og náðu mest sex marka forskoti í fyrri hálfleik. Þegar gengið var til búningsherbergja var munurinn fjögur mörk, 18-14.

Heimamenn í Lemgo juku svo forskot sitt enn frekar í seinni hálfleik og unnu að lokum afar sannfærandi níu marka sigur, 39-30.

Bjarki Már skoraði tvö mörk fyrir Lemgo sem er nú með sex stig í fyrsta til fjórða sæti B-riðils, líkt og GOG, Nantes og Benfica.

Þá skoraði Kristján Örn Kristjánsson fimm mörk fyrir PAUC er liðið gerði jafntefli gegn Gorenje í botnslag C-riðils, .

Kristján og félagar náðu mest þriggja marka forystu í fyrri hálfleik og fóru 17-14 inn í hlé.

Liðið náði svo mest fimm marka forystu í seinni hálfleik en slæmur kafli undir lok leiks hleypti gestunum þó hættulega mikið inn í leikinn. Gestirnir nýttu sér það og náðu að jafna undir lok leiksins og lokatölur urðu 26-26.

Þetta var fyrsta stig Kristjáns og félagar í Evrópudeildinni, en liðið er nú með eitt stig á botni riðilsins eftir fjóra leiki.

Að lokum gerðu lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar jafntefli gegn Nimes í D-riðli, 25-25, en liðið er nú með tvö stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×