Efstur á óskalista Barcelona?

Paul Pogba á eitt ár eftir af núverandi samningi sínum …
Paul Pogba á eitt ár eftir af núverandi samningi sínum við United. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er sagður efstur á óskalista forráðamanna knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni en það er Mundo Deportivo sem greinir frá þessu.

Pogba var sterklega orðaður við brottför frá Manchester United í sumar en enska félagið var ekki tilbúið að selja hann fyrir minna en 100 milljónir punda.

Ekkert félag var tilbúið að borga svo háa upphæð fyrir Frakkann sem er orðinn 27 ára gamall en hann er samningsbundinn United til sumarsins 2021 en United getur framlengt núverandi samning hans um ár.

Barcelona gat lítið styrkt sig á leikmannamarkaðnum í sumar en félagið losaði sig við nokkra leikmenn sem voru hátt launaðir.

Ronald Koeman, nýráðinn stjóri liðsins, mun fá fjármagn næsta sumar til að styrkja hópinn og vill byggja lið sitt í kringum þá Pogba og Lionel Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert