Atli Sveinn Þórarinsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari Hauka í 2. deild karla. Hann skrifar undir tveggja ára samning.
Atli stýrði Fylki ásamt Ólafi Stígssyni síðustu tvö tímabil. Þeir voru látnir fara þaðan fyrir nokkrum vikum. Atli þjálfaði áður Davík/Reyni í 3. deild, 2. flokk karla hjá KA auk þess að þjálfa yngri flokka hjá Stjörnunni.
Igor Bjarni Kostic hefur þjálfað Hauka undanfarin tvö tímabil. Hann hætti á dögunum.
,,Við bindum miklar vonir við Atla og höfum trú á að hann sé rétti maðurinn í að stýra liðinu aftur upp í Lengjudeildina. Að sama skapi ætlum við að styrkja hópinn enn frekar. Þá vil ég nota tækifærið og þakka Igor fyrir vel unnin störf fyrir knattspyrnudeild Hauka þar sem hann leiddi m.a. innleiðingu á nýrri námsskrá, hafði umsjón með afreksskóla deildinnar og stuðlaði að faglegra starfi knattspyrnudeildar í samstarfi við aðra þjálfara – það er vinna sem mun nýtast áfram,“ segir Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, um ráðninguna.
Haukar höfnuðu í níunda sæti 2. deildar í sumar. Á tímablinu í fyrra hafnaði liðið í fjórða sæti sömu deildar.