Schallenberg verður kanslari í dag

Schallenberg eftir fund sinn með Van der Bellen í Ballhausplatz …
Schallenberg eftir fund sinn með Van der Bellen í Ballhausplatz í Vín í gær. AFP

Alexander Schallenberg, utanríkisráðherra Austurríkis, tekur í dag við valdataumunum í landinu eftir að fráfarandi kanslarinn Sebastian Kurz tilnefndi hann sem arftaka sinn í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar um helgina.

Kurz, sem 35 ára að aldri hefur verið einn af yngstu leiðtogum Evrópu – og skærasta ungstirni austurrískra stjórnmála, tilkynnti á sömu stundu að hann viki úr embætti kanslara.

Schallenberg, sem er 52 ára, mun sverja eið frammi fyrir forsetanum Alexander Van der Bellen klukkan eitt eftir hádegi að staðartíma í Vín, eða klukkan ellefu að íslenskum tíma í dag.

Afsögn Kurz kom í kjölfar þess að kanslarinn var vændur um spillingu, en greint var frá því um miðja síðustu viku að hann sætti rannsókn vegna gruns um að hafa nýtt almannafé til að tryggja sér hagfellda umfjöllun í götublaðinu Österreich.

Kurz gengur á brott eftir að hafa tilkynnt afsögn sína …
Kurz gengur á brott eftir að hafa tilkynnt afsögn sína í ávarpi á laugardagskvöld. AFP

Stýrt tveimur ríkisstjórnum

Grunur leikur á um að á árunum 2016 og til 2018 hafi fjármunir úr fjármálaráðuneyti landsins verið notaðir til þess að greiða fyrir hagfelldar skoðanakannanir. Þessar skoðanakannanir hefðu eingöngu þjónað pólitískum hagsmunum Þjóðarflokksins, flokks þeirra Kurz og Schallenberg, og birst í Österreich.

Tímasetning þessara meintu fjárútláta skarast á við það tímabil þegar Kurz komst til valda í Þjóðarflokknum og leiddi hann í ríkisstjórnarsamstarf með Frelsisflokknum. Síðan þá hefur hann stýrt tveimur ríkisstjórnum; með Frelsisflokknum frá 2017 til 2019, og með Græningjum frá janúar á síðasta ári.

Þjóðarflokkurinn og Græningjar vonast nú til að víkja sér undan þessu hneyksli og halda stjórnarsamstarfinu áfram til ársins 2024.

Forsetinn Alexander Van der Bellen greindi fjölmiðlum frá stöðu mála …
Forsetinn Alexander Van der Bellen greindi fjölmiðlum frá stöðu mála síðdegis í gær. AFP

Opna nýjan kafla

Schallenberg kom til fundar við Van der Bellen í gær, eftir að hafa rætt við varakanslarann Werner Kogler, formann samstarfsflokksins Græningja. Fyrir fundinn talaði hann um „gríðarlega erfiða tíma“, sem ekki væru auðveldir nokkrum þeirra.

„En ég held að við séum að sýna ótrúlega mikla ábyrgð fyrir hönd þessa lands,“ tjáði hann viðstöddum blaðamönnum.

Hinn 59 ára Kogler sagðist umfram allt ánægður með að mögulegt væri að opna nýjan kafla í ríkisstjórnarsamstarfinu.

Hann hafði þegar gefið til kynna síðla kvölds á laugardag að flokkur hans styddi Schallenberg til að leiða áfram samstarf flokkanna í ríkisstjórn.

Kurz hefur hafnað öllum ásökunum og ítrekaði í ávarpi sínu að ásakanirnar hefðu ekki við neitt að styðjast. Hann myndi reyna að gera hreint fyrir sínum dyrum á sama tíma og hann heldur áfram formennsku í flokknum og setu á þingi.

Stjórnarandstaðan telur Kurz vera í pólitísku tafli og að hann …
Stjórnarandstaðan telur Kurz vera í pólitísku tafli og að hann muni halda áfram að skáka í skjóli Schallenberg. AFP

Skuggakanslari

Stjórnmálaskýrandinn Thomas Hofer segir Kurz munu halda áfram, að minnsta kosti að sinni, að vera áhrifamesta manneskjan í Þjóðarflokknum á landsvísu.

„Kurz lítur á Schallenberg sem staðgengil. Hann leysti þetta á þann hátt að hann heldur enn um valdataumana í flokknum og er með ríkisstjórnarliðið á bak við sig,“ segir Hofer í samtali við AFP-fréttaveituna.

Stjórnarandstaðan hefur á sama tíma mótmælt áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi í ljósi yfirstandandi rannsóknar. Formaður Sósíaldemókrata, Pamela Rendi-Wagner, hefur látið hafa eftir sér að Kurz muni einfaldlega halda áfram sem „skuggakanslari“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert