„Verður sá besti í heimi“

Jude Bellingham átti magnaðan leik í gær.
Jude Bellingham átti magnaðan leik í gær. AFP/Paul Ellis

Hinn 19 ára gamli Jude Bellingham hefur slegið í gegn með Englandi á HM í fótbolta í Katar, en strákurinn ungi átti mjög góðan leik í 3:0-sigri Englands á Senegal í 16-liða úrslitum í gær.

„Ég vil ekki segja of mikið, því hann er enn ungur, en hann er einn hæfileikaríkasti leikmaður sem ég hef nokkurn tímann séð,“ sagði Phil Foden, liðsfélagi hans í enska landsliðinu, við ITV eftir leikinn í gær.

„Ég sé enga veikleika í leiknum hans. Hann verður besti miðjumaður í heimi,“ bætti Foden við. Bellingham varð í gær fyrsti táningurinn til að gefa stoðsendingu fyrir enskt landslið á HM frá árinu 1966. Bellingham átti þá góða sendingu á Jordan Henderson, sem skoraði með skoti úr teignum.

Jude Bellingham og Jordan Henderson fagna eftir að sá fyrrnefndi …
Jude Bellingham og Jordan Henderson fagna eftir að sá fyrrnefndi lagði upp mark á þann síðarnefnda í gær. AFP/Anne-Christine Poujoulat

„Hann er einstakur og ég get ekki hætt að hrósa honum. Hann er enn ungur og við verðum að leyfa honum að njóta þess að spila, en hann er magnaður,“ sagði Henderson við BBC eftir leik.

Landsliðsfyrirliðinn Harry Kane hrósaði einnig miðjumanninum í leikslok. „Hann er frábær leikmaður, sem gerir allt vel. Mér líkar vel við hann. Hann er góð manneskja og er mikill leiðtogi, þrátt fyrir ungan aldur,“ sagði Kane við BBC.

Bellingham klikkaði aðeins á einni sendingu í öllum leiknum og var með 100 prósent sendingahlutfall á vallarhelmingi andstæðinganna í gær.

Leikmaðurinn leikur sem stendur með Dortmund í Þýskalandi, en hann er uppalinn hjá Birmingham og var kornungur þegar hann lék sína fyrstu leiki með liðinu í ensku B-deildinni. Hann hefur verið orðaður við stærstu félög Englands og er ekki ósennilegt að hann skipti um félag eftir leiktíðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert