fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Erlingur upplifði eitraða klefamenningu og fékk nóg er hann heyrði af ógeðfelldri hefð – „Ég mætti aldrei aftur á æfingu“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 13. september 2021 17:30

Þórhildur Gyða Arnardóttir (t.h) steig fram og greindi frá ofbeldi sem landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson (t.v.) beitti hana árið 2017 og varð það til þess að bæði stjórn KSÍ og formaður sambandsins sögðu af sér.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erlingur Einarsson, ritstjóri og gagnrýnandi, æfði eitt sinn knattspyrnu á Íslandi og kynntist karlrembu og eitraðri klefamenningu. Hann segir menninguna hafa verið það ríka innan klefans að erfitt var að mótmæla því án þess að eiga það á hættu að verða sjálfur skotmark.

Hann skrifar um þetta á Twitter þar sem hann bendir á að í ljósi sinnar reynslu úr knattspyrnu hér á landi sé ekki erfitt að trúa þolendum knattspyrnumanna og til að breytingar geti orðið á þessari menningu þá þurfi að knattspyrnumenn að vera fyrirmyndir ekki bara í orði heldur einnig á borði. Tilefni skrifanna er KSÍ-málið svokallaða er hófst þegar  Þórhildur Gyða Arnardóttir steig fram í fréttum og greindi frá því að KSÍ hafi vitað af því að hún hafi kært landsliðsmanninn Kolbein Sigþórsson (sem hún nafngreindi þó ekki) fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi árið 2017.  Undanfarið hefur frásögn Þórhildar verið dregin í efa og margir hafa farið mikinn á opinberum vettvang í að kasta rýrð á frásögn Þórhildar og sverta mannorð hennar.

Erlingur deilir reynslu sinni af klefamenningu til að benda á að það er ekki erfitt að trúa Þórhildi og öðrum þolendum knattspyrnumanna í ljósi þeirrar menningar sem þeir alast upp við í búningsklefanum.

Ofbeldisblætisfull karlremba

„Ég spilaði einu sinni fótbolta,“ svona hefst langur þráður tísta sem Erlingur ritar í dag. Hann segir að hann líkt og margir aðrir krakkar elskaði að spila fótbolta.  Sjálfur bjó Erlingur á bóndabæ svo ekki voru mörg tækifæri til að spila „alvöru“ bolta fyrr en hann var orðinn táningur.

„Þegar ég var 15 ára mætti lið frá höfuðborgarsvæðinu á svæðið og ég fékk að æfa með þeim. Ég var ekkert sérlega góður, spilaði tvo eða þrjá æfingaleiki með þeim, í C-liðinu ef ég man rétt. En kúltúrinn virkaði skemmtilegur, fullt af strákastælum jú, en ég fann að áskorunin myndi bæta mig hratt þannig að þegar ég flutti í bæinn til að fara í menntaskóla fór ég að æfa með öðru liði á svæðinu, í 2. flokki.“

Erlingur segir að margir efnilegir leikmenn hafi verið með honum í liðinu, meðal annars einn sem síðar spilaði með landsliðinu auk margra sem komust seinna í úrvalsdeildina. Sjálfur var Erlingur ekki einn af þeim bestu, en hann sá þó fyrir sér að með því að leggja sig fram gæti hann þó náð framförum.

„En ég hætti áður en tímabilið byrjaði ástæðan var sú að ég hataði hverja einustu sekúndu í þessum félagsskap. Hver einasta æfing var yfirfull af ofbeldisblætisfylltri karlrembu, það var hreytt þreyttum lesbíu og kynferðis“bröndurum“ í stelpulið sem æfðu á undan og eftir okkur, og búningsherbergið, jesús.“

Fróa sér yfir hann í klefanum eftir leik

Erlingur segir klefamenninguna hafa verið uppfulla af eitraðri karlmennsku og fordómum.

„Þegar það var ekki verið að stæra sig af kynferðislegum yfirburðum sínum var blautum handklæðum smellt í rassinn á þeim sem „klikkuðu“ á einhverju á æfingum, hraunað yfir hitt kynið, hómófóbían á fullu auðvitað, og allt eftir því.“

Erlingur rifjar upp eitt atvik sem átti sér stað á síðustu æfingunni sem hann mætti á.

„Eitt sem ég man enn ljóslifandi, einhverjum 23 árum seinna, er á síðustu æfingunni minni áður en ég hætti og mætti aldrei aftur. Þá var því lýst yfir af „leiðtogum“ liðsins að það væri hefð að sá sem skoraði fyrsta markið yrði „verðlaunaður“ með því að restin af liðinu myndi fróa sér yfir hann í klefanum eftir leik, og þeir sem tækju ekki þátt yrði sjálfum „refsað“ með nákvæmlega sama hætti. Ég mætti aldrei aftur á æfingu.“

Erlingur kveðst ekki viss um hvort þetta var bara eitthvað sem sagt var í búningsklefanum í hálfkæring eða hvort þetta væri í raun og veru gert eftir fyrsta mark, enda hafði hann engan áhuga á því að kanna sannleiksgildi þessarar yfirlýsingar.

„Það sem þetta sagði mér hins vegar, er að karlmennskan í fótbolta á Íslandi er og hefur lengi verið baneitruð.

Ekki eru allir fótboltamenn ofbeldismenn

Erlingur bendir á að þarna hafi verið á ferðinni drengir, unglingar á aldrinum 15-17 ára. Þeir hafi ekki fundið upp á þessari orðræðu sjálfri heldur lært þetta frá eldri leikmönnum og hafi svo sjálfir kennt þessi viðhorf til yngri leikmanna.

„Stelpur sem spiluðu fótbolta voru „ljótar lesbíur“. Hommar yrðu barðir ef þeir lætu sjá sig í klefanum með fótboltaliði. Og ef þú værir ekki „með“ í stemningunni yrði níðst á þér.“

Erlingur segir að ekki séu allir knattspyrnumenn ofbeldismenn, en miðað við viðhorfin í búningsklefanum væri það barnalegt að telja að þessi viðhorf fylgdu mönnum ekki út úr klefanum.

„Já, það eru ekki allir fótboltamenn ofbeldismenn. Ég sá það sjálfur með muninum á þessum tveimur höfuðborgarklúbbum sem ég æfði með. En ég veit líka, byggt á því sem ég sá sjálfur, hvort módelið var algengara á þessum tíma.

Og það er barnalegt að gera ráð fyrir því að þessi viðhorf yrðu skilin eftir í klefanum. Hvernig myndu ungir, hrifnæmir, óöruggir strákar á unglingsaldri sjá umheiminn byggt á því sem þeir lærðu í því sem þeir elskuðu mest að gera; að spila fótbolta?

Hvernig myndu þeir koma fram við kvenfólk, samkynhneigða, þá sem voru „öðruvísi“? Hvað ef þeir fengju svo allt í einu fullt af pening plús aðdáun pöpulsins í ofanálag, af því að þeir voru góðir í fótbolta (þar sem þeir lærðu þessa heimssýn)? Þrjú gisk.“

Auðvelt að trúa þolendum

Erlingur þjónaði líka eitt sinn til borðs í lokahófi Úrvalsdeildar nokkrum árum síðar og þar varð honum deginum ljósara að viðhorfin úr búningsklefanum lifðu enn góðu lífi.

„Ég man líka eftir að hafa þjónað til borðs í lokahófi Úrvalsdeildar nokkrum árum seinna, þar sem ég heyrði málsmetandi fólk þess tíma og dagsins í dag innan knattspyrnuhreyfingarinnar halda á lofti þessum sömu viðurstyggilegu viðhorfum og ég sá í míkrókosmóinu í unglingaliðinu.“

Erlingur segist því ekki eiga erfitt með að trúa þolendum og hann dáist af konum eins og Þórhildi Gyðu Arnardóttur fyrir að hafa styrkinn standa upp, stíga fram og varpa ljósi á þessa menningu.

Við getum hjálpað hvort öðru að vera hugrökk

Erlingur segist sjálfur ekki vera fullkominn, hann hafi sagt fordómafulla brandara um konur, samkynhneigða og aðra þegar hann var yngri og skammast hann sín fyrir það í dag. Bæði hafi hann skort hugrekki til að standa upp og mótmæla en einnig hafi þar spilað inn hópþrýstingur og samfélagsnorm.

„Ég gæti sagt „ég vissi ekki betur“, en ég vissi betur. Ég hlustaði bara ekki. Ég sýndi ekki virðingu. Og það angrar mig ennþá.

Og af hverju sagði ég ekki neitt á sínum tíma? Af hverju stóð ég ekki upp í klefanum og mótmælti? Af hverju lét ég mig bara hverfa? Einfalda svarið er: ég var ekki nógu hugrakkur. Flókna svarið er vafið inn í blöndu hópþrýstings, kvíða, andlegrar sjálfsvarnar og samfélagsnorma. Og það eru þessi samfélagsnorm sem þarf að takast á við, og við þurfum öll að gera það saman. Við getum hjálpað hvort öðru að vera hugrökk.

Það er ekki verið að „reyna að taka fólk af lífi“ hérna.

Erlingur bendir á að nýlega umræða um málefni KSÍ snúist ekki um að taka menn af lífi heldur sé þetta einfaldlega ákall um að fyrirmyndir unga fólksins í dag hagi sér sem fyrirmyndir og hafi þeir brotið af sér, að þeir gangist við því og sýni iðrun.

Það er ekki verið að „reyna að taka fólk af lífi“ hérna. Það er, sýnist mér, einfaldlega verið að biðja um að fyrirmyndir ungs fólks hér á landi hagi sér sem slíkar, og að ef þeir hafi ekki hagað sér eins og fyrirmynd, að þeir horfist í augu við það og sýni raunverulega iðrun. Þannig, og aðeins þannig, getum við komið í veg fyrir að næsta kynslóð fótboltamanna endurtaki sömu mistökin. Og aðeins með því að standa með þolendum samtímans og fortíðarinnar getum við fækkað þolendum framtíðarinnar.“

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala