Vonast til að kynna frekari aðgerðir fyrir atvinnulausa

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í tröppum Ráðherrabústaðarins nýverið. Bjarni Benediktsson …
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í tröppum Ráðherrabústaðarins nýverið. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sést fyrir aftan hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, vonast til að geta kynnt frekari aðgerðir, sem stjórnvöld eru með í undirbúningi, til að til að grípa inn í á vinnumarkaði og aðstoða þá sem hafa misst vinnuna í kórónuveirufaraldrinum. 

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ræddi málefni atvinnulausra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Hún benti á að sveitarfélög og stéttarfélög hafi kallað eftir lengingu tímabils atvinnuleysisbóta. Samfylkingin hafi lagt slíkt til slag í slag og það hafi jafnóðum verið fellt af stjórnarliðum. „Ég spyr: Hvers vegna vill hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra ekki lengja tímabil atvinnuleysisbóta við þessar aðstæður? Hvers vegna ekki?“

Aldrei útilokað að lengja bótatímabilið

Ásmundur sagði að núverandi ríkisstjórn hefði hækkað bætur. „Við höfum lengt tekjutengda tímabilið, við höfum hækkað greiðslur til einstaklinga sem eru atvinnulausir og eru með börn á framfæri. Þar hefur verið hækkað það álag sem leggst á atvinnuleysisbætur. Sá sem hér stendur eða ríkisstjórnin hefur aldrei útilokað möguleikann á því að lengja bótatímabil. Ég hef sagt það og sérstaklega undanfarnar vikur að við höfum verið að fara yfir þau mál og skoða með hvaða hætti sé skynsamlegt að grípa þarna inn í. Við höfum átt góð samtöl um það við Samband íslenskra sveitarfélaga og erum að forma aðgerðir í þá veru að ná utan um þann hóp sem er búinn að vera atvinnulaus í 30 mánuði eða lengur eða er að detta inn á það,“ sagði ráðherra.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Arnþór

Hann sagði, að það yrði gert með tvennt í huga. Annars vegar að tryggja framfærslu þessa fólks, sem væri gríðarlega mikilvægt, og hins vegar að finna leiðir til að koma því í virkni samhliða og koma atvinnulífinu af stað.

„Við höfum verið að forma leiðir til að ná þessu hvoru tveggja. Ég bind vonir við að við getum kynnt þær á næstunni vegna þess að ég tek undir með háttvirtum þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að ná utan um þessar fjölskyldur, ná utan um þessa einstaklinga. Það hefur ríkisstjórnin gert eins og ég rakti hér áðan, og það ætlum við okkur að gera áfram. Ég bind vonir við að við getum kynnt það á næstunni,“ sagði Ásmundur. 

Bera ákveðnar samfélagslegar skyldur

Oddný spurði í kjölfarið hversu flókið þetta mál væri. „Hvað þarf nefnd langan tíma til að átta sig á hver staðan er hjá fólki sem misst hefur vinnuna í atvinnukreppu? Þessi nefnd er búin að starfa síðan í byrjun desember, það kom alla vega fram í máli hæstvirts forsætisráðherra, 14. desember, og nú er kominn mars og það er ekkert að frétta. Hvað er svona flókið? Hvern einasta dag sem hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra situr hjá og tekur ekki á málinu eykst efnahagslegur og félagslegur vandi sem mun hafa mikinn kostnað í för með sér í framtíðinni,“ sagði hún og bætti við að við sem samfélag bærum ákveðnar skyldur til að taka á þessum vanda. 

Ásmundur tók fram að stjórnvöld hafi verið í mjög góðu sambandi við sveitarfélögin. Einnig við Félagsþjónustu sveitarfélaga og við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hann benti á að engin nefnd sé starfandi heldur sé málið verið, innan ráðuneytisins í samstarfi við sveitarfélögin, að kortleggja þann hóp sem er að klára bótatímabil.

Samhliða hafi verið unnið að því að teikna upp möguleikann á að ná betur utan um þennan hóp fjárhagslega, bæði gagnvart þeirra stöðu, gagnvart stöðu sveitarfélaganna og líka til þess að koma fólki í virkni. 

„Ríkisstjórnin hefur svo sannarlega verið með margvíslegum aðgerðum að grípa inn í á vinnumarkaði og við erum að undirbúa frekari aðgerðir í því og munum gera það áfram eftir því sem kórónuveirufaraldurinn dregst á langinn. Það er mjög skynsamlegt að gera það, að vera alltaf á tánum, og það hefur ríkisstjórnin gert,“ sagði félagsmálaráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert