Vinstri græn séu afl sem þorir

Í kvöld fara fram eldhúsdagaumræður á Alþingi
Í kvöld fara fram eldhúsdagaumræður á Alþingi Árni Sæberg

Vinstrihreyfingin - grænt framboð er afl sem þorir, sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. 

Bjarkey stiklaði á stóru og taldi til ýmislegt sem flokkurinn náði fram á kjörtímabilinu sem nú er senn á enda. Dregið hafi úr skerðingum í almannatryggingakerfinu sem og skerðingum á greiðslum til öryrkja auk þess sem tekinn var upp viðbótarstuðningur við aldraða. Hún benti á að atvinnuleysisbætur og barnabætur hafi verið hækkaðar og að fæðingarorlofið hafi verið lengt. Hún talaði einnig um þá lífskjarabót sem náðist með styttingu vinnuvikunnar. Hlutdeildarlánin hafi svo gert fólki kleift að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði.

Bjarkey nefndi fleiri aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hafa stefnt að jöfnuði og réttlátara samfélagi. Réttindi trans-, kynsegin og intersex fólks hafi verið tryggð. Ný jafnréttislög samþykkt, vernd uppljóstrara lögfest og upplýsingaréttur almennings rýmkaður.

Þá vék hún að vinnu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við breytingar að stjórnarskránni. “Nú höfum við sem hér eigum sæti í þessum sal tækifæri til að stíga skrefið og gera breytingar á því mikilvæga grunnplaggi okkar,“ bætti hún við.

Bjarkey fór einnig yfir stöðu heilbrigðiskerfisins. Nú hafi heilsugæslan verið efld til muna og kostnaðarþátttaka sjúklinga lækkuð. Hún benti á að nýr landspítali rísi nú við Hringbraut og að stórsókn hafi orðið í heilbrigðismálum. Hún þakkaði svo Svandísi og þríeykinu fyrir forystu sína í baráttu við Covid.

Hún kom svo inn á störf umhverfis- og auðlindaráðherra þar sem hann lagði fram og fékk samþykkta fullfjármagnaða aðgerðaráætlun í loftslagsmálum í fyrsta sinn. „Lengi vel var VG eini flokkurinn sem setti náttúruvernd og loftslagsmál í forgang. Enda var hlegið að fjallagrasaétandi lopapeysuliðinu í VG á sínum tíma. Nú eru tímarnir blessunarlega aðrir og allir flokkar hafa umhverfismál á stefnuskrá sinni í einhverri mynd,“ sagði hún svo.

Bjarkey fór svo yfir þau mikilvægu skref sem stigin hafa verið í málaflokki kynferðislegs og kynbundins ofbeldis. Þar bar hæst lögfesting stafræns kynferðisofbeldis og réttarbót fyrir þolendur. Búið sé að samþykkja og fjármagna áætlun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn ofbeldi af þessum toga og einnig hafi verið kynntar aðgerðir fyrir gerendur í ofbeldismálum.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert