Banna flugdreka í þágu þjóðaröryggis

Þessi mynd var tekin í síðasta mánuði og sýnir glöggt …
Þessi mynd var tekin í síðasta mánuði og sýnir glöggt flugdrekakraðakið. AFP

Lögreglan í Kaíró í Egyptalandi hefur lagt hald á 369 flugdreka eftir að bann var lagt við notkun þeirra í norðurhluta landsins. Bannið var að sögn sett á til að tryggja öryggi íbúa eftir fjölda slysa þeim tengdum. Höfðu þingmenn varað við að af flugdrekunum stafaði „þjóðaröryggishætta“. Í Alexandríu, næststærstu borg landsins, liggur nú 1.000 egypskra punda sekt (8.400 kr.) við því að flúga flugdrekum.

Flugdrekar hafa notið mikilla vinsælda í Egyptalandi frá því útgöngubann á kvöldin var sett á í landinu til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar, en til að stytta sér stundir hefur ungt fólk flogið þeim í gegnum glugga eða svalir.

Ekki hefur öllum glaðst uppátækið. Khaled Abu Taleb, sem situr í öryggis- og varnarmálanefnd egypska þingsins, sagði í síðasta mánuði að hann vildi að forsætisráðherrann yrði upplýstur um hætturnar sem fælust í flugdrekaflugi. Af þeim stafaði „þjóðaröryggishætta“ þar sem þeir gætu til dæmis verið búnir eftirlitsmyndavélum. Var þingmaðurinn í kjölfarið hafður að háði og spotti á samfélagsmiðlum í Egyptalandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert