„Hey, eigum við að opna netkaffi hérna?“

Ground Zero tölvuleikjastaður Grensásvegi
Ground Zero tölvuleikjastaður Grensásvegi Árni Sæberg

Lansetrið Ground Zero er að verða tuttugu ára gamalt en það var fyrst staðsett á Ingólfstorgi og flutti þaðan á Frakkastíginn en hefur nú aðsetur á Grensásvegi.

„Þegar við opnum Ground Zero á sínum tíma voru tvö netkaffi á Íslandi en þau voru bæði stíluð á krakka. Ég var sjálfur tvítugur á þessum tíma og er niðri í bæ með vin mínum og við sjáum þetta hús á Ingólfstorgi. Þá spyr ég „Hey, eigum við að opna netkaffi hérna?“ og svo töluðum við við fasteignasalann og allt í einu vorum við búnir að opna netkaffi,“ segir Kristinn Ingi Hrafnsson í samtali við mbl.is en hann er einn af stofnendum lansetursins Ground Zero sem stofnað var árið 2002.

Ground Zero tölvuleikjastaður Grensásvegi
Ground Zero tölvuleikjastaður Grensásvegi Árni Sæberg

Allir upplifi sig velkomna

Kristinn Ingi og Sigurður Jónsson smíðuðu og hönnuðu staðinn á Grensásvegi að innan og var hugmyndin með hringlaga borðin sú að allir gætu talað og spilað saman án þess að vera fyrir hvorum öðrum eða að þeir gæti séð á skjá hvor annars.

Leggja stofnendur mikið upp úr því að öllum líði vel og upplifi sig velkomna og hafa hundar Ground Zero spilað stóran þátt í því ásamt fúsleika umsjónarmanna staðsins til þess að komast til móts við alla sína kúnna. Hafa kúnnar haft kost á að því að óska eftir ákveðnum leikjum og hafa leikirnir iðulega verið keyptir og settir upp á tölvurnar fyrir þá.

Loðnir starfsmenn

Fyrsti hundur Ground Zero hét Dímon og átti hann það til að labba til hóps af fólki sem spjallaði saman og reka við og labba í burtu en telur Kristinn Ingi það hafa verið í stríðni vegna þess að oft fór fólkið að rökræða við hvort annað um það hver hafi verið að leysa vind.

Stormur sér um öryggisprófanir á snúrum í Ground Zero.
Stormur sér um öryggisprófanir á snúrum í Ground Zero. Ljósmynd/Aðsend

Seinni hundurinn hét Ella Bella og var af tegundinni Rottweiler en hún kom síðan til með að vera andlit staðarins þar Melína Kolka, fyrrum varaformaður Rafíþróttasamtaka Íslands og ein af stofnendum Rafíþróttasamtaka Íslands, hannaði einkennismerki staðarins með mynd af Ellu Bellu.

Í dag stendur hundurinn Stormur vaktina en hann er einungis tveggja ára gamall og samkvæmt vefsíðu Ground Zero sér hann um öryggisprófanir á snúrum en hann má stundum finna á staðnum þar sem hann ýmist röltir um staðinn og býður gesti velkomna eða hvílir sig við innganginn.

Þetta er lífsstíll

„Tölvuleikir eru áhugamál og þetta er lífsstíll,“ segir Kristinn Ingi og nefnir að margir eignist vini í gegnum tölvuleiki og þekki hann eins til hjóna sem hafa kynnst í gegnum tölvuleikjaspilun. 

Kristinn Ingi telur fjölgun á tölvuleikjum og hækkun verðs á tölvubúnaði hafa dregið úr þeirri menningu sem áður var í heim tölvuleikja en áður fyrr var meira um stóra LAN-viðburði og má nefna viðburði á borð við Skjálfta þar sem stór hópur fólks úr öllum áttum kom saman til þess að spila og hafa gaman saman.

Ground Zero tölvuleikjastaður Grensásvegi
Ground Zero tölvuleikjastaður Grensásvegi Árni Sæberg

Setja sig í spor kúnnanna

Ground Zero hefur alltaf boðið gestum upp á ódýr verð og segir Ingi hugsunina á bakvið það vera að setja sig í spor kúnnanna, „Hvað er ég til í að borga sjálfur?“ og segir að hann sjálfur myndi ekki tíma að borga mjög mikið og þá myndi hann eflaust koma sjaldnar og jafnvel kaupa sér sína eigin tölvu frekar. En hugsunin á bak við verðin er einmitt sú að allir geti komið og sanngirni skipti sköpum.

„Komiði bara að hafa gaman, það eru allir velkomnir hjá okkur því hingað er fólk bara komið til þess að spila tölvuleiki,“ segir Kristinn Ingi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert