Real Madríd heldur lífi í titilvonum sínum

Éder Militao skallar boltann og kemur Real Madríd yfir í …
Éder Militao skallar boltann og kemur Real Madríd yfir í leiknum gegn Osasuna í kvöld. AFP

Real Madríd lenti í miklum vandræðum þegar Osasuna sótti ríkjandi Spánarmeistara heim í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Liðið komst þó yfir erfiðleikana og skoraði tvö mörk seint í leiknum og tryggði sér þar með mikilvægan sigur.

Það var ekki fyrr en á 76. mínútu að Madrídingar náðu að brjóta ísinn þegar Éder Militao skoraði með skalla eftir hornspyrnu Isco.

Fjórum mínútum síðar gerði Casemiro svo út um leikinn þegar hann skoraði af stuttu færi eftir góðan undirbúning Karim Benzema.

Real Madríd heldur þar með í við nágranna sína í Atlético Madríd, sem er á toppi spænsku 1. deildarinnar með 76 stig, og þar með lífi í titilbaráttunni þar sem Real er nú tveimur stigum á eftir grönnunum í öðru sætinu og fjórar umferðir eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert