Hæstiréttur tekur ekki fyrir mál þrotabús Karls

Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni í máli þrotabús Karls Wernerssonar gegn …
Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni í máli þrotabús Karls Wernerssonar gegn syni hans, Jóni Hilmari Karlssyni, en þrotabúið vildi fá afhent öll bréf í Toska ehf, móðurfélagi um eignir sem Karl átti áður. Þar á meðal má nefna eignarhlut í Lyfjum og heilsu. Samsett mynd

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni þrotabús Karls Wernerssonar gegn syni hans, Jóni Hilmari Karlssyni, um að fá afhent öll bréf í félaginu Toska ehf., vegna riftunar á framsali bréfanna á sínum tíma frá Karli til Jóns Hilmars. Er um að ræða anga af stærsta málinu sem þrotabúið hefur höfðað.

Þegar málið fór fyrir héraðsdóm fór þrotabúið fram á það sem aðalkröfu að framsal hlutabréfa Toska til Jón Hilmars yrði rift og að þrotabúið fengi bréfin í sína vörslu. Héraðsdómur vísaði þeirri kröfu frá m.a. út frá þeim rökum að talið var að hlutabréf félagsins hefðu hækkað mikið í virði frá því að framsalið átti sér stað og miða ætti við verðmæti á þeim tíma.

Hins vegar féllst héraðsdómur á varakröfur þrotabúsins um að Jóni Hilmari bæri að greiða þrotabúinu 464 milljónir vegna riftunarinnar. Með vöxtum hleypur sú upphæð á um 700 milljónum.

Báðir aðilar áfrýjuðu málinu, en ákveðið var að skipta því upp í tvo hluta. Annars vegar þar sem tekist væri á um hvort þrotabúið ætti að fá hlutabréfin í heild til sín eða ekki. Hins vegar um varakröfuna og við hvaða dagsetningu skyldi miða þegar horft væri til framsalsins, þ.e. hvort Jóni Hilmari bæri að greiða þessar 700 milljónir eða ekki eða hvort upphæðin ætti að vera önnur.

Þrotabúið hafði meðal annars gert kröfu um að miðað væri við að framsalið hafi átt sér stað árið 2016, en Jón Hilmar sagði það hafa átt sér stað árið 2014. Hafði verðmæti Toska á þessum tíma aukist umtalsvert og telur þrotabúið að það eigi að fá talsvert umfram þessar 700 milljónir samkvæmt því.

Seinni angi málsins bíður enn afgreiðslu Landsréttar, en sá fyrri var tekinn fyrir í fyrra og í nóvember staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms að vísa frá aðalkröfunni um að þrotabúið fengi aftur öll hlutabréfin í Toska. Vildi þrotabúið þá að Hæstiréttur myndi eiga lokaorð um þetta atriði, en Hæstiréttur taldi réttarfarsleg skilyrði ekki til staðar til að taka málið fyrir. Er þeim anga málsins því lokið að svo stöddu.

Hinn anginn á sem fyrr segir enn eftir að fara fyrir Landsrétt, en þrotabúið óskaði meðal annars eftir löggeymslu á bréfum í Toska upp á um 700 milljónir vegna útistandandi dómsmáls og var orðið við því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert