Arnar Már Snorrason hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Sæplasts í Evrópu með aðsetur á Dalvík. Arnar tekur við starfinu af Daða Valdimarssyni sem mun færa sig í starf forstjóra Rotovia, nýstofnaðs móðurfélags Sæplasts og Tempra.

Rotovia er nýtt félag sem stofnað var eftir að gengið var frá kaupum íslenskra fjárfesta, þar á meðal framtakssjóðanna SÍA IV og Freyju, á hverfissteypudeild Berry Global Inc en innan þeirrar deildar eru meðal annars Sæplast og Tempra. Hverfissteypudeild Berry Global Inc var áður hluti af Promens sem selt var úr landi árið 2015 en félagið var á þeim tíma eitt stærsta fyrirtæki landsins.

Sjá einnig: Íslenskir fjárfestar kaupa Promens

Arnar hefur verið framkvæmdastjóri markaðsþróunar hjá Sæplasti frá 2011 en hann hefur gegnt margvíslegum störfum innan fyrirtækisins, þar á meðal sinnt sölu- og markaðsstarfi, verið verksmiðjustjóri Sæplasts á Dalvík og verið framkvæmdarstjóri Sæplasts í Hollandi. Arnar lauk MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík í júní 2022.

Sæplast sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á endurnýtanlegum og endurvinnanlegum kerum og brettum sem notuð eru í matvælaframleiðslu og í endurvinnsluiðnaði. Sæplast hannar og framleiðir einnig breiða vörulínu í byggingatengdum vöruflokkum s.s. brunna, tanka, rotþrær, skiljur o.fl.

Undir Sæplast í Evrópu tilheyrir starfsemi félagsins á Íslandi, Spáni og Noregi ásamt söluskrifstofum félagsins í Evrópu, Afríku og Asíu. Í verksmiðju félagsins á Dalvík starfa að jafnaði um 65 manns en alls eru um 120 starfsmenn hjá Sæplasti í Evrópu.