Heiður að fá forsetahjónin í heimsókn

Forsetahjónin voru kát með sína fyrstu opinberu heimsókn eftir langa …
Forsetahjónin voru kát með sína fyrstu opinberu heimsókn eftir langa bið. Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jó­hann­es­son, for­seti Íslands, og El­iza Reid for­setafrú fóru í sína fyrstu opinberu heimsókn í dag. Þá var þétt dagskrá er þau heimsóttu sveitarfélagið Ölfus en eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag að þá hófst heimsóknin í Herdísarvík þar sem Elliði Vignisson bæjarstjóri Þorlákshafnar og Gestur Kristjánsson forseti bæjarstjórnar tóku á móti þeim hjónum. 

„Þetta er fyrsta opinbera heimsókn okkar, bæði innanlands og utan eftir að heimsfaraldurinn skall á og mikið ánægjuefni að við getum tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið,“ sagði forsetinn í samtali við blaðamann mbl.is. „Það er svo gaman að finna að það er bjart framundan, við erum á þeirri leið að ná yfirhöndinni og senn getum við fagnað fullum sigri ef svo fer sem horfir ef við sýnum fulla aðgát.“

Jón Jónsson tók lagið við góðar undirtektir.
Jón Jónsson tók lagið við góðar undirtektir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá sagði forsetinn að gaman væri að finna fyrir atorku, jákvæðni og krafti í Ölfus. „Við erum búin að tala mikið um Covid og heimsfaraldinn en það sem kemur úr því er svo mikil nýsköpun með nýjum og skapandi hugmyndum, ekki síst í menningarlífi en líka í viðskiptalífinu, hvernig hægt er að gera hluti betur og vinna betur saman,“ sagði Eliza Reid forsetafrú. „Vilji er allt sem þarf,“ sagði forsetinn og vísaði þar í orð Einars Benediktssonar skálds, sem bjó í Herdísarvík.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftirvænting í Þorlákshöfn fyrir heimsókninni

Forsetahjónin kíktu á Vorhátíð Grunnskólans í Þorlákshöfn og einnig í kaffi í boði félags eldri borgara í Þorlákshöfn. Á báðum stöðum mátti sjá mikla eftirvæntingu eftir heimsókn hjónanna. Skólabörnin tóku á móti hjónunum með því að flagga íslenska fánanum og tók síðan Jón Jónsson lagið við góðar undirtektir.

Móttökur voru þá ekki síðri í kaffi hjá félagi eldri borgara en þar biðu ljúfir tónar á píanó og kræsingar. Þá mátti sjá að heimsóknin vakti mikla lukku meðal eldri borgaranna en blaðamaður náði á tal tveimur konum sem lýstu gleði sinni yfir því að forsetinn og forsetafrúin væru þarna viðstödd með þeim. „Þetta er alveg dásamlegt svona gleðigjafi, þau eru bæði svo yndisleg.“

Skólabörn tóku vel á móti forsetahjónunum.
Skólabörn tóku vel á móti forsetahjónunum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Mikil gleði var meðal eldri borgara með heimsókn forsetahjónanna.
Mikil gleði var meðal eldri borgara með heimsókn forsetahjónanna. Kristinn Magnússon

Mikill heiður að fá forsetahjónin

„Þetta er náttúrulega mikill heiður fyrir okkur að taka á móti Guðna og Elizu og ánægjulegt að þau skuli velja sveitarfélagið Ölfus sem fyrsta áfangastað eftir þetta furðulega Covid tímabil og við erum stolt af því sem við höfum sýnt þeim,“ sagði Elliði Vignisson bæjarstjóri Þorlákshafnar. „Guðni og Eliza hafa sýnt það í dag það sem við vissum, að þau eru hlý, elskuleg og mannleg og nánd þeirra er uppörvandi fyrir okkur sem tökum á móti þeim.“

Þá sagði hann að gaman væri að heyra hversu oft forsetahjónin hafa talað um þann slagkraft sem er í samfélaginu í Ölfus í dag, þá bjartsýni og óbilandi trú. „ ég held að sveitarfélagið Ölfus og forseti lýðveldisins séu í einlægum takti,“ sagði hann.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Elliða Vignissyni bæjarstjóra Þorlákshafnar …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Elliða Vignissyni bæjarstjóra Þorlákshafnar gjöf. mbl.is/Kristinn Magnússon
Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert