Hans aftur í landsliðið 39 ára gamall

Hans Óttar Lindberg skorar í landsleik.
Hans Óttar Lindberg skorar í landsleik. AFP

Þótt hinn íslenskættaði Hans Óttar Lindberg sé orðinn 39 ára gamall og hafi ekki verið valinn í hóp danska landsliðsins í handknattleik fyrir heimsmeistaramótið í Egyptalandi er landsliðsferill hans ekki á enda.

Nikolaj Jacobsen hefur valið Hans á ný í lið sitt fyrir tvo leiki gegn Norður-Makedóníu í undankeppni EM sem fram fara í næsta mánuði. Hornamaðurinn reyndi, sem leikur með Füchse Berlín í Þýskalandi, er í 18 manna hópi fyrir leikina og þeir Henrik Toft Hansen og Lasse Möller koma einnig inn í liðið á ný.

Lasse Svan, Morten Olsen og Anders Zacharaiassen sem voru í heimsmeistaraliðinu í janúarmánuði eru hins vegar ekki í hópnum að þessu sinni.

Danska handknattleikssambandið hefur engar útskýringar gert á breytingunum en liðið var tilkynnt með fréttatilkynningu í dag.

Bæði Danmörk og Norður-Makedónía hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í undankeppninni og fara bæði að óbreyttu í lokakeppnina sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar 2022. Sviss og Finnland eru hin tvö liðin í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert