Rosalega ánægður og hrærður

Valur er Íslandsmeistari karla í handbolta 2021.
Valur er Íslandsmeistari karla í handbolta 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er allt öðruvísi sem þjálfari en leikmaður,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir að hann stýrði Val til sigurs á Íslandsmóti karla í handbolta á Ásvöllum í kvöld. Valur vann Hauka með samanlagt sjö mörkum í tveimur úrslitaleikjum. 

Snorri hóf farsælan leikmannaferil með Val fyrir rúmum tveimur áratugum en fagnaði aldrei Íslandsmeistaratitli áður en hann hélt á vit ævintýranna í atvinnumennsku. „Ég hef ekki unnið þennan titil með Val áður og ég er rosalega ánægður og hrærður yfir þessu. Ég þarf aðeins að melta þetta og fá smá fjarlægð frá þessu,“ bætti Snorri við. 

Valsmenn voru með yfirhöndina allan tímann í kvöld og var sigurinn sanngjarn, sannfærandi og verðskuldaður. „Mér leið þokkalega, ég ætla ekki að segja að mér hafi liðið vel. Mér er búið að líða vel í úrslitakeppninni og í aðdraganda hennar. Ég hafði góða tilfinningu og mér finnst þetta rökrétt spilamennska.“

Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Haukar voru mun sterkari en Valsmenn í deildarkeppninni og töpuðu aðeins tveimur leikjum í vetur á meðan Valur tapaði átta. 

„Mér finnst við ekki með síðra lið en Haukar og fannst það ekki fyrir leikinn. Við erum með betra lið en þeir í dag. Þeir áttu auðvitað stórkostlegt tímabil á meðan við áttum í ákveðnum erfiðleikum, ég ætla ekki að fara í felur með það. Ég missti samt aldrei trúna og ég vissi að við gætum þetta,“ sagði hann. 

Snorri segir sigurinn vera kærkominn eftir langt og erfitt tímabil og vonbrigði með að fá ekki að klára síðasta tímabil. „Ekki spurning. Við urðum meistarar í fyrra, þannig séð, og það sveið mikið að fá ekki að klára það. Þá vorum við á svipuðu skriði og Haukar. Þetta er stórkostlegt,“ sagði Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert