Frábært að vera kominn aftur

Eiður Smári Guðjohnsen stýrði FH í kvöld.
Eiður Smári Guðjohnsen stýrði FH í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Eiður Smári Guðjohnsen snéri aftur í Bestu deild karla eftir tveggja ára fjarveru er hann stýrði FH í 1:1-jafntefli gegn ÍA á útivelli í kvöld.

„Það er frábært að vera kominn aftur. Þetta er ákvörðun og staða sem kom upp frekar snöggt en það er bara gaman,“ sagði Eiður við mbl.is eftir leikinn en hann var ágætlega sáttur með spilamennsku síns liðs.

„Spilamennskan var fín á köflum, við byrjum leikinn nokkuð vel fannst mér, héldum boltanum ágætlega í erfiðum aðstæðum eins og getur oft verið hérna uppi á Skaga. Ég var ánægðastur með vinnusemina í liðinu, sérstaklega eftir að við lendum manni færri.

Við þurftum að sýna mikla þolinmæði eftir að við fáum mark á okkur af því að skagaliðið lagðist nokkuð aftarlega og voru mjög þéttir, það var erfitt að finna glufur og svo var eitt og eitt atvik. Mér fannst við kannski eiga að fá víti í seinni hálfleik,“ sagði hann.

Davíð Snær Jóhannsson miðjumaður FH fékk rautt spjald í seinni hálfleik eftir brot á Steinari Þorsteinssyni.

„Mér fannst nú Davíð hafa náð boltanum en kannski tekur manninn með og mig minnir nú að hann hafi verið kominn með gult spjald en hvort þetta hafi verið beint rautt veit ég ekki, ég er ekki búinn að sjá þetta aftur,“ sagði Eiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert