Var í rauninni bara leikurinn við Ungverjaland

Guðmundur þungt hugsi yfir leiknum í kvöld.
Guðmundur þungt hugsi yfir leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson var vonsvikinn með að sigurleikurinn gegn Brasilíu í kvöld hafi verið síðasti leikur íslenska liðsins á HM karla í handbolta, en Íslandi mistókst að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum.  

„Það er í huga okkar allra að við erum stutt frá því að fara í átta liða úrslit. Þetta var í rauninni lokakaflinn gegn Ungverjum þegar koma of mörg mistök. Það var erfitt að sætta sig við,“ sagði Guðmundur. Ísland var með unninn leik í höndunum gegn Ungverjalandi, en tapaði eftir slakan lokakafla.

Hefði sá leikur unnist, væri Ísland búið að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum. Einhverjir vildu að Guðmundur myndi nýta breidd íslenska liðsins betur gegn Ungverjalandi.

„Það er hægt að vera vitur eftir á og allir geta sagt að einhverjir hefðu átt að spila frekar en aðrir. Við vorum alltaf að plana að þetta mót yrði lengra en þetta. Við vorum með þrjár örvhentar skyttur og það var frábært að sjá Donna koma inn. Hann er nýstiginn upp úr meiðslum, sem allir eru búnir að gleyma.

Guðmundur lætur í sér heyra í kvöld.
Guðmundur lætur í sér heyra í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann var hægt og sígandi að komast í gang. Hann átti frábæran leik í dag, var stórkostlegur. Gísli og Bjarki voru mjög góðir líka. Þetta var í rauninni bara leikurinn við Ungverjaland. Við klárum Portúgal, Suður-Kóreu, Grænhöfðaeyjar og þennan leik.

Það er gríðarlega erfitt við að eiga við Svíþjóð á þeirra heimavelli. Ég held í þeim leik svíður að við skorum 30 mörk en misnotum 14 dauðafæri. Það fer með þann leik. Það getur ekkert lið leyft sér,“ sagði hann og hélt áfram:  

„Við erum með einn besta handboltamann í heimi, Ómar, sem var frábær á móti Portúgal. Hann er búinn að vera stórkostlegur með sínu félagsliði og með okkur. Svo dettur hann út og Aron sömuleiðis. Það er rosalegt skarð sem þeir skilja eftir í vörn og sókn. Það var mjög erfitt fyrir okkur að upplifa það,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert