Viðskipti innlent

Aukning í heildarkortaveltu í fyrsta skipti frá upphafi faraldursins

Eiður Þór Árnason skrifar
Íslendingar virðast hafa bætt sér ágætlega upp þá neyslu sem hefði að öðrum kosti farið fram erlendis.
Íslendingar virðast hafa bætt sér ágætlega upp þá neyslu sem hefði að öðrum kosti farið fram erlendis. vísir/vilhelm

Neysla Íslendinga jókst verulega milli ára í mars, en 24% aukning var í kortaveltu innanlands tengd verslun og þjónustu miðað við fast verðlag. Samanlagt jókst kortavelta um 20% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag en 2% samdráttur var í kortaveltu Íslendinga erlendis.

Er þetta í fyrsta sinn sem aukning mælist á heildarkortaveltunni milli ára frá upphafi faraldursins. Um er að ræða mikla breytingu frá því sem verið hefur síðustu mánuði en í febrúar mældist aukningin innanlands 5,6% og var 45% samdráttur í neyslu erlendis frá.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans en Seðlabanki Íslands birti í gær gögn um veltu innlendra greiðslukorta í mars. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 74 milljörðum króna í mánuðinum.

Reiknuðu með viðsnúningi

„Það mátti búast við því að viðsnúningur á 12 mánaða þróun myndi mælast nokkur í mars þar sem nú er verið að bera saman tímabil þar sem takmarkanir á neyslu fólks vegna Covid-faraldursins voru við lýði bæði fyrir og eftir. Ef við berum tölur marsmánaðar í ár saman við marsmánuð 2019, þegar engin áhrif voru af Covid-faraldrinum, sést að kortavelta innanlands eykst um 15% miðað við fast verðlag en dregst saman um 44% erlendis miðað við fast gengi,“ segir í Hagsjánni.

Í heild mælist aukningin milli mars í ár samanborið við mars árið 2019 3% sem bendir til að Íslendingar hafi bætt sér ágætlega upp þá neyslu sem hefði að öðrum kosti farið fram erlendis.

Á fyrsta ársfjórðungi mældist kortavelta Íslendinga alls 2% meiri en í fyrra, mæld á föstu verðlagi. Kortavelta innanlands jókst um 11% en dróst saman um 35% erlendis.

Að sögn Landsbankans er þetta er í fyrsta sinn síðan á fjórða ársfjórðungi árið 2019 sem aukning mælist milli ára í kortaveltu Íslendinga á stökum ársfjórðungi. Miðað við þetta má einnig gera ráð fyrir því að það mælist lítils háttar aukningu í einkaneyslu milli ára á fjórðungnum en einkaneysla hefur fylgt þróun kortaveltu nokkuð náið frá því að faraldurinn hófst.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×