Reyna að fá sóknarmann Arsenal til að velja Bandaríkin

Folarin Balogun fagnar marki í leik með Reims.
Folarin Balogun fagnar marki í leik með Reims. AFP/Francois Lo Presti

Anthony Hudson, þjálfari bandaríska karlalandsliðsins til bráðabirgða, segir að viðræður hafi átt sér stað við sóknarmanninn Folarin Balogun, leikmann Arsenal sem hefur slegið í gegn sem lánsmaður hjá Reims í frönsku 1. deildinni á tímabilinu, um að hann velji að spila fyrir Bandaríkin.

Balogun, sem er 21 árs, er fæddur í Bandaríkjunum en flutti kornungur til Englands, þar sem hann ólst upp. Báðir foreldrar hans eru frá Nígeríu og því getur hann valið um að spila fyrir landslið allra þriggja þjóða.

Bandaríska landsliðið æfir nú í Flórída fyrir leiki í Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku og sást til Balogun á svæðinu.

„Eins og ég hef áður sagt höfum við átt í samræðum. Hann er hérna í smá fríi og að æfa aðeins og við höfum aðeins rætt málin.

Ég tel samræðurnar hafa gengið vel því við höfum fengið tækifæri til þess að deila því með honum hvað við stöndum fyrir og hvernig við gerum hlutina.

Það er allt og sumt. Ég vona að við fáum annað tækifæri til þess að ræða við hann. Þetta hefur verið gott og ég veit að nokkrir leikmannana hafa rætt við hann einnig,“ sagði Hudson á blaðamannafundi í gær.

Balogun var valinn í enska U21-árs landsliðið í núverandi landsleikjaglugga en dró sig úr hópnum vegna meiðsla. Auk þess að hafa leikið fyrir yngri landslið Englands á hann að baki fjóra leiki fyrir U18-ára landslið Bandaríkjanna á sínum tíma.

Áður hefur Balogun lýst því yfir að hann væri áhugasamur um að leika fyrir landslið Nígeríu. Stór ákvörðun bíður því sóknarmannsins öfluga.

Balogun hefur skorað 17 mörk í 27 deildarleikjum fyrir Reims á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert