Gana í slæmri stöðu eftir jafntefli

André Biyogo Poko hjá Gabon í baráttu við André Ayew, …
André Biyogo Poko hjá Gabon í baráttu við André Ayew, markaskorara og fyrirliða Gana, í kvöld. AFP

Gana glutraði niður forystu á ögurstundu þegar liðið mætti Gabon í C-riðli Afríkumótsins í knattspyrnu í Kamerún í kvöld.

André Ayew kom Gana yfir eftir 18 mínútna leik. Hann fékk þá boltann frá Thomas Partey og náði hnitmiðuðu skoti rétt fyrir utan teig sem hafnaði niðri í vinstra horninu.

Gana virtist vera að sigla mikilvægum sigri í höfn eftir að hafa tapað fyrsta leik gegn Marokkó en allt kom fyrir ekki.

Jim Allevinah jafnaði nefnilega metin fyrir Gabon á 88. mínútu. Náði hann góðu skoti vinstra megin í teignum sem hafnaði í fjærhorninu.

Bernard Tetteh, miðjumaður Gana, fékk svo beint rautt spjald fyrir að kýla andstæðing sinn á þriðju mínútu uppbótartíma.

Niðurstaðan 1:1 jafntefli og verkefnið því erfitt fyrir Gana þó það spili við lakasta lið C-riðilsins, Kómorós, í lokaumferð hans.

Ásamt því að þurfa að vinna sinn leik þarf Gana nefnilega að reiða sig á að Gabon tapi fyrir Marokkó, sem er þegar komið áfram í 16-liða úrslitin, í lokaumferðinni.

Marokkó er með sex stig, Gabon fjögur, Gana eitt og Kómorós ekkert þegar öll liðin hafa leikið tvo leiki í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka