„Ergilegt að þurfa að blása í alla lúðra“

„Þetta er ákveðin kúvending á því sem birtist í svari …
„Þetta er ákveðin kúvending á því sem birtist í svari fjórum dögum fyrr inni á þingi þar sem ráðuneytið virtist ekki taka neina ábyrgð á því að bæta úr stöðunni,“ segir Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata. Ljósmynd/Inga Dóra Guðmundsdóttir

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, segir algjöra kúvendingu hafa orðið á svörum heilbrigðisráðherra  biðtíma hjá átröskunarteymi Landspítala. Hann vill ekki kenna núverandi stjórnvöldum algjörlega um stöðuna en segir að slæm staða teymisins hefði átt að vera þeim ljós þegar þau tóku við stjórnartaumunum árið 2017.

Andrés sendi heilbrigðisráðherra fyrirspurn um biðtíma hjá átröskunarteymi Landspítala og fékk hann svar í síðustu viku. Í svarinu kom fram að biðtími eftir þjónustu teymisins hefði lengst úr tveimur til fjórum mánuðum í 18 til 20 mánuði á fjórum árum.

Ólík svör

Eftir ríkisstjórnarfund á föstudag ræddi blaðamaður mbl.is við Svandísi sem sagði að staðan væri óásættanleg og að hún ætlaði að kalla eftir áætlun um úrbætur frá Landspítala. Í fyrrnefndu svari var ekki minnst á slíkt. Þegar Andrés spurði hvernig heilbrigðisráðherra hygðist stytta biðina og treysta grundvöll starfseminnar til framtíðar var því svarað með eftirfarandi hætti:

„Ráðherra leggur áherslu á að stjórnendur heilbrigðisstofnana forgangsraði þjónustu stofnana í ljósi þarfar hverju sinni, eins og kveðið er á um í reglugerð um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa nr. 1111/2020. Húsnæðismál teyma á geðsviði Landspítala sem búið hafa við ófullnægjandi húsakost eru til skoðunar í ráðuneytinu.“

Andrés segir að það sé jákvætt að Svandís ætli að kalla eftir aðgerðaáætlun frá Landspítala.

„En þetta er ákveðin kúvending á því sem birtist í svari fjórum dögum fyrr inni á þingi þar sem ráðuneytið virtist ekki taka neina ábyrgð á því að bæta úr stöðunni. Það er pínu ergilegt að það þurfi að blása í alla lúðra í fjölmiðlum til að ráðuneytið taki við sér í svona mikilvægu máli.“

Frá Landspítala. Andrés segir jákvætt að Svandís ætli að kalla …
Frá Landspítala. Andrés segir jákvætt að Svandís ætli að kalla eftir aðgerðaáætlun frá spítalanum en kúvending hafi orðið í svörum hennar. mbl.is/Árni Sæberg

Hefði átt að vera stjórnvöldum ljóst

Biðtími eftir þjónustu átröskunarteymisins hefur lengst mikið á síðastliðnum fjórum árum en núverandi ríkisstjórn tók við keflinu árið 2017. Spurður hvort ríkisstjórnin beri að einhverju leyti ábyrgð á stöðunni segir Andrés:

„Það eru náttúrulega ýmsar ytri aðstæður sem hafa þessi áhrif eins og húsnæðisvandi og Covid. Í grunninn er þetta spurning um það að setja fókus á að laga þennan vanda. Þetta hefur verið þróun í dáltítið mörg ár. Þegar Svandís var þingmaður fékk hún svar við fyrirspurn um stöðu teymisins. Það var árið 2016. Þá hafði biðtíminn lengst og fólki á biðlista fjölgað. Þetta hefur verið eitthvað sem hefur þurft að laga í langan tíma og hefði átt að vera alveg ljóst þegar þau tóku við,“ segir Andrés.

Hann óskaði eftir svörum um málið eftir að notendur þjónustunnar bentu á slæma stöðu. „Þegar biðlistar eru komnir upp í svona rosalega langan tíma er þetta orðið stórhættulegt ástand,“ segir Andrés.  

„Svo þurfum við bara að fylgjast með að þessu verði fylgt eftir. Það skiptir mjög miklu máli. Nú þarf bara að laga þetta. Þetta eru engar stórar upphæðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert