Útgjöld hins opinbera til menningarmála námu 2,5% af heildarútgjöldum á árinu 2018 um leið og 0,5% heildarútgjalda var varið til fjölmiðla. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar .

Í samanburði við önnur Evrópuríki var hlutur menningar af heildarútgjöldum hins opinbera þriðji hæstur á Íslandi en aðeins Ungverjaland og Lettland vörðu hærri hlutdeild heildarútgjalda til menningarmála, 2,7% og 2,8%. Í sex ríkjum varði hið opinbera hærra hlutfalli af heildarútgjöldum til fjölmiðla. Hlutfallið á Íslandi var þó hærra en að meðtali í löndum Evrópusambandsins (ESB) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hvort sem horft er til útgjalda vegna menningar eða fjölmiðla.

Á Íslandi hefur hlutdeildin haldist svipuð síðustu tíu ár en hún var lægst 2,2% árið 2016 og hæst 2,6% árið 2013. Á verðlagi ársins 2018 voru útgjöldin rúmlega 29 milljarðar króna bæði 2009 og 2018 en upphæðin fór lægst í rúma 25 milljarða króna árið 2012. Útgjöld hins opinbera til fjölmiðla voru tæplega 6,5 milljarðar króna árið 2018. Hlutfall útgjalda til fjölmiðla af heildarútgjöldum hefur einnig haldist svipað frá 2009 en fór þó hæst upp í 0,8% árið 2015.

Sé aðeins horft til útgjalda ríkisins árið 2018 var 1,5% af heildarútgjöldum þeirra veitt til menningarmála og 0,8% til fjölmiðla. Þá var 4,7% af heildarútgjöldum sveitarfélaga varið til menningarmála.