Sex undir bílnum á einum tímapunkti

Otti Sigmarsson við hlið jeppans, sem nú er kominn í …
Otti Sigmarsson við hlið jeppans, sem nú er kominn í lag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir annað útkall björgunarsveitarinnar Þorbjarnar á þriðjudag kom í ljós bilun í einum jeppa sveitarinnar. Var honum ekið til Hafnarfjarðar til viðgerðar í gærmorgun, auk þess sem farið var með annan jeppa í dekkjaskipti.

Upp úr klukkan 14 í gær fékk sveitin svo boð um að eldgos gæti verið bráðlega í vændum.

„Við skutluðum tækinu í bæinn í gærmorgun og viðgerðin átti að taka tvo daga,“ segir Otti Sigmarsson, félagi í björgunarsveitinni Þorbirni, sem ræddi við blaðamann mbl.is í húsi björgunarsveitarinnar í Grindavík í dag.

Jepparnir tveir sem notaðir voru í leiðangri dagsins.
Jepparnir tveir sem notaðir voru í leiðangri dagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hófust handa um leið

Hann bætir við að um hádegisbilið í gær hafi verið búið að taka dekk og felgur undan bílnum, auk annarra tilfæringa.

„Síðan koma þessi boð upp úr klukkan tvö og við komum þeim áleiðis til verkstæðisins. Þeir hófust handa um leið og á einum tímapunkti voru sex bifvélvirkjar undir bílnum að vinna að honum, til að klára þetta,“ segir Otti.

Svo fór að viðgerð sem átti að taka tvo daga tók í stað þess tvær klukkustundir. Ekkert varð þó af gosinu.

„En jeppinn er að minnsta kosti kominn í lag og tilbúinn um leið og útkall berst.“

Og fyrr í dag kom jeppinn að góðum notum þegar hópur frá sveitinni fór ásamt lögreglu og fulltrúa sveitarfélagsins upp á fell austur af mesta skjálftavirknisvæðinu, til að kanna aðstæður og hvernig bæta megi fjarskiptaöryggi í grennd við mögulegt gos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert