Enn fleiri dauðir lundar finnast í fjöru

Myndir frá Náttúrustofu Vesturlands af tveim af þeim hundruð lunda …
Myndir frá Náttúrustofu Vesturlands af tveim af þeim hundruð lunda sem fundust í fjörunni í dag. Samsett mynd

Nokkur hundruð nýlega dauðir lundar fundust í fjöru sunnan við Löngufjörur á Vesturlandi fyrir neðan Nýlenduvatn í dag. Þetta staðfestir Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, í samtali við mbl.is.

Hann segir að í heildina séu mörg hundruð lundar dauðir og jafnvel þúsund þó að ómögulegt sé að segja nákvæmlega til um dauðsfallið.

Dauðir lundar á nokkra metra fresti

Róbert segir að þau hafi fundið hræin af lundunum fyrir tilviljun á meðan þau voru við aðrar fuglarannsóknir. 

„Við vorum að telja vatnafugla í dag og ég ákvað að kíkja niður í fjöruna því mér í datt hug að það væru mögulega dauðir fuglar þar. Við gengum bara aðeins þarna í fjörunni og sáum mjög mikið af lunda. Það var dauðir lundi á nokkra metra fresti.“

Róbert tekur fram að það sé forvitnilegt hve ferskir lundarnir voru og bendir á að þeir hafi verið ósnertir af hræætum og hvorki horaðir né rotnir. Hann bætir við að þessi fundur bendi til þess að þetta ástand sé því miður ekki liðið hjá.

Dauðsföllin á versta tíma

Spurður hvaða þýðingu þessi dauðsföll hafi fyrir lundastofninn á Vesturlandi segir Róbert ómögulegt að svara því.

„Þetta er náttúrulega mjög slæmt. Þetta er auðvitað á versta tíma, á hávarptímanum og þetta eru allt fullorðnir varpfuglar en það veit enginn hvaða þýðingu þetta hefur fyrir stofninn. Þetta leggst ofan á erfiðleika sem hafa verið undanfarin ár.“

Verst að vita ekki hvað veldur þessu

Hann segir það óþægilegast að vita ekki hvað veldur þessu en nýjustu niðurstöður frá MAST sýna fram á að ekki sé um fuglaflensu að ræða. 

„Það er mögulegt að þetta sé einhver annar sjúkdómur en það er ekki hægt að útiloka aðrar orsakir. Það er búið að vera mjög slæmt veður núna í maí og há ölduhæð.“

Hann segir að næstu skref verði að taka fleiri sýni og senda í greiningu. 

„Ég tók fleiri sýni núna sem að MAST ætlar að kíkja á aftur og síðan tókum við líka sýni fyrir Náttúrufræðistofnun sem ætlar að skoða þetta betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert