Dæmdir fyrir að nota falsaða evruseðla

Evrur.
Evrur. AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt fjóra einstaklinga fyrir að hafa notað falsaða evruseðla, bæði til að kaupa vörur og til að skipta þeim fyrir íslenskar krónur.

Einn til viðbótar var sýknaður þar sem ekki taldist sannað að honum hefði verið ljóst að seðill sem hann notaði væri falsaður.

Ákvörðun refsingar tveggja sem voru sakfelldir var frestað og fellur hún niður eftir tvö ár haldi þeir skilorði.

Einn var dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi og annar í fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Seðlarnir voru notaðir helgina 18. og 19. janúar 2020, aðallega til að kaupa vörur í verslunum N1 og Hagkaups í Grafarvogi með eftirlíkingum af peningaseðlum, 100 og 200 evrum. Einnig voru þeir notaðir í skiptum fyrir íslenskar krónur í spilasal Háspennu að Laugavegi. Auk þess nýtti einn af ákærðu falsaðan seðil á veitingastaðnum Ölveri.

Hinir ákærðu viðurkenndu að hafa notað peningaseðlana en sögðust ekki hafa vitað að þeir væru falsaðir.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess langa dráttar sem varð á rannsókn málsins, m.a. vegna kórónuveirunnar. Rannsóknin hófst 20. janúar 2020 en lá svo niðri fram í nóvember sama ár. Ákært var í málinu 2. febrúar síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert