Eru íbúar Búdapest tilraunadýr?

Stuðningsmenn Bayern München hafa aðgang að þrjú þúsund miðum.
Stuðningsmenn Bayern München hafa aðgang að þrjú þúsund miðum. AFP

Stjórnmálamenn bæði í Ungverjalandi og Þýskalandi hafa blandað sér í umræðuna um leik Bayern München og Sevilla í kvöld þar sem liðin keppa um Ofurbikar Evrópu. 

Athygli hefur vakið að áhorfendur verða leyfðir á leiknum. Um 20 þúsund miðar eru í boði á leikvangi sem tekur 67 þúsund manns. Þrjú þúsund miðar eru í boði fyrir Þjóðverja og aðrir þrjú þúsund fyrir Spánverja. Heimamenn geta keypt um 14 þúsund miða. 

„Þessi tilraun er óásættanleg. Þeir [Knattspyrnusamband Evrópu] nota fjórtán þúsund Ungverja sem tilraunadýr til að athuga hvort eða hvernig kórónuveiran dreifir sér á fjölmennum viðburðum. Ég er á móti því að setja Ungverjaland í slíka hættu,“ sagði sósíalistinn Ildiko Borbely sem sæti á á ungverska þinginu. 

Starfsmannastjóri forsætisráðherra sagði opinberlega að viðburðurinn væri líklega öruggari en flestir aðrir fjölmennir viðburðir og vísaði þar til þeirra ráðstafana sem eru gerðar til að forðast að smitaðir einstaklingar mæti á leikinn. 

Allir áhorfendur verða hitamældir við komuna á völlinn og verður snúið við ef þeir mælast með meira en 37,8. Áhorfendur sem koma frá Þýskalandi og Sevilla þurfa að sýna vottorð um að þeir hafi farið í skimun síðustu þrjá daga á undan og niðurstaðan hafi verið neikvæð. 

Forsætisráðherra Bæjaralands tjáði sig einnig um málið og mæltist til þess að fólk færi ekki til Ungverjalands til að horfa á leikinn. Leikurinn væri ekki sá mikilvægasti hjá Bayern. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert