fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Lögmaður segir fanga hafa meiri rétt en fósturbörn á Íslandi – „Og öllum þeim sem geta gert eitthvað í þessu er slétt sama“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 23. september 2021 10:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sara Pálsdóttir, lögmaður, segist hafa kynnst baranverndarkerfinu á Íslandi nokkuð í gegnum störf sín og ber því ekki góða söguna. Segir hún að staðan sé orðin það slæm að í reynd hafi fangar á Íslandi meiri réttindi en fósturbörn. Hún greinir frá þessu í grein sem birtist hjá Vísi í dag.

Dómstólar eru meðvirkir

„Dómstólar eru meðvirkir með barnavernd og staðfesta nánast ávallt gerðir barnaverndar, sama hversu brotleg meðferðin kann að hafa verið. Lögreglan neitar að bregðast við lögbrotum opinberra barnaverndarstarfsmanna. Mikill ótti er í kerfinu.“

Sara segir að hún hafi sogast inn í þetta kerfi í desember í fyrra og geti nú með hreinskilni sagt að hver einasti skjólstæðingur hennar úr barnaverndarmáli upplifi afskipti og málsmeðferð barnaverndar sem ofbeldi.

„Og ég er yfirleitt sammála þeim,“ segir hún. Hún segir að nálgast megi þessi mál á mun manneskjulegri máta en nú er gert. „Iðulega er það þannig að staða foreldris versnar fremur en að batna, við afskipti barnaverndar. Þannig heggur sá er hlífa skyldi.“

Í hrörlegu kuldalegu húsnæði

Hún tekur sem dæmi „grimmilegar“ umgengistálmanir.

„Ef foreldri sem misst hefur barn frá sér, iðulega vegna sjúkdómsins alkohólisma, er barninu refsað með því að takmarka umgengni barnsins við foreldri sitt við 2-4 skipti á ári, undir eftirliti, í hrörlegu og kuldalegu húsnæði á vegum barnaverndar.“

Sara segir að þetta sé gert undir því yfirskini að verið sé að „vernda stöðugleika og ró barnsins í fóstri“ og að markmið með umgengni sé ekki að halda tengslum milli barns og foreldris heldur að tryggja að barn „þekki uppruna sinn“.

Brýtur gegn grundvallarlögum

Sara bendir á að þetta gangi gegn ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu, að ógleymdri sjálfri stjórnarskrá Íslands. „Hið ólögmæta markmið barnaverndar er því algert tengslarof milli foreldris og barns.“

„Samt sem áður þykir það t.d. sjálfsagt að rífa barn fyrirvaralaust í faðm foreldris, úr leikskóla, frá stórfjölskyldunni og planta því hjá fósturforeldrum einhvers staðar lengst út á landi á nýtt heimili, með nýju fólki, á nýjan leikskóla, nýjan landshluta, langt langt frá öllu sem barnið þekkir og þar sem öll umgengni við foreldri, systkini og/eða stórfjölskyldu er gerð verulega erfið t.d. vegna fjarlægða.“ 

Sara segir að Mannréttindadómstóllinn hafi gagnrýnt svona vinnubrögð harðlega í dómum sínum. Hefur Sara, að hennar sögn, ítrekað bent barnaverndarnefndum, úrskurðarnefnd Velferðarmála, dómstólum og Umboðsmanni Alþingis á þessi brot.

„Dómstólar neita meira að segja að dæma um rétt fósturbarna til umgengni við foreldri, í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrár, auk 6. gr. Mannréttindasáttmálans. Þrátt fyrir að dómstólar dæmi á hverjum einasta degi í málum sem varða rétt skilnaðarbarna til umgengni við foreldri sitt. Fósturbörn njóta bara ekki sömu sjálfsögðu mannréttinda og aðrir, eins og t.d. aðgengis að dómstólum til úrlausnar um mannréttindi sín.“ 

Fangar eiga ríkari rétt

Sara segir að fósturbörn sem hafi sér ekkert til saka unnið fái ekki einu sinni að hitta foreldri sitt jafnvel þó það sé orðið edrú.

„Saklaus fósturbörn sem hafa misst foreldra sína eða foreldri sitt frá sér, fá ekki að hitta þau, jafnvel þótt foreldrið sé edrú, í langtímabata og góðu jafnvægi. Jafnvel þótt það sé heitasta þrá þessara barna að hitta mömmu eða pabba meira, oftar. Fósturbörn fá einungis að hitta foreldri sitt 2-4 sinnum á ári og undir eftirliti við þvingaðar aðstæður.“ 

Bendir Sara á að þetta séu verri réttindi en föngum hér á landi eru tryggð.

„Fangar í lokuðum fangelsum eiga hins vegar þann lágmarksrétt að hitta barnið sitt einu sinni í viku, í fallegu umhverfi og eftirlitslaust, að því gefnu að foreldrið sé edrú og í jafnvægi (að sjálfsögðu). Iðulega eru heimsóknir barna til fanga þó tíðari en það“ 

Þar með eigi fangar ríkari rétt til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu en fósturbörn.

„Saklaus börn, sem ekkert hafa gert af sér. Samt er þeim refsað með þessum grimmilega hætti. Og foreldrarnir, sem misstu frá sér börnin sín vegna veikinda, þeim er sömuleiðis refsað. Og öllum þeim sem geta gert eitthvað í þessu er slétt sama, gera ekkert. Þetta eru jú barna, réttlaus fósturbörn og eitthvað dópistapakk. Hverjum er ekki sama um þeirra mannréttindi?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat