Ísland hafnaði í þriðja sæti

Íslensku drengirnir töpuðu illa fyrir Finnum í dag.
Íslensku drengirnir töpuðu illa fyrir Finnum í dag. Ljósmynd/Karfan.is

Undir 18 ára drengjalið Íslands tapaði lokaleik sínum gegn Finnlandi á Norðurlandamótinu í körfuknattleik í Finnlandi í dag. Lokatölur urðu 100:62 Finnlandi í vil. Ísland hafnar því í þriðja sæti. 

Finnland vann því mótið en liðið vann alla fimm leiki sína. Danmörk og Svíþjóð enduðu með sex stig, jafn mörg stig og Ísland, en Danmörk nælir sér í annað sætið á innbyrðisviðureignum. 

Eistland hafnar í fimmta sæti og Noregur í því sjötta.

Karfan.is greinir frá. 

Íslenska liðið fór vægast sagt illa af stað í leiknum. Það gekk lítið sem ekkert upp sóknarlega og líklega var það enn verra á varnarhelmingi vallarins. Nýting Finnlands á þessum upphafsmínútum var einkar góð, tæp 50% fyrir utan þriggja stiga línuna og 60% úr öllum skotum. Það var 19 stiga munur eftir fyrsta leikhluta, 33-14. Undir lok fyrri hálfleiksins héldu yfirburðir Finnlands svo áfram, liðið bætti enn við forystu sína og var 31 stigi yfir þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 56-25.

Ísland gerði ágætlega að halda fengnum hlut í upphafi seinni hálfleiksins. Liðið náði þó lítið sem ekkert að vinna á forystu heimamanna, sem enduðu svo 32 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 75-43. Leikurinn var á þessum tímapunkti nánast úti, en undir lokin sigldu heimamenn mjög svo öruggum sigur og Norðurlandameistaratitli í höfn, 100-62.

Tómas Valur Þrastarson var atkvæðamestur í liði Íslands í dag með 16 stig og þrjú fráköst.

Róbert Sean Birgmingham var valinn í úrvalslið mótsins sem kosið er af þjálfurum allra liða mótsins. Í nokkuð jöfnu liði Íslands var Róbert bestur með 14 stig, fimm fráköst og tvær stoðsendingar að meðaltali í leik. 

Róbert Sean Birmingham.
Róbert Sean Birmingham. Ljósmynd/Karfan.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert