„Nú er að hvessa hjá okkur“

Ferðamenn í stormi við Hallgrímskirkju.
Ferðamenn í stormi við Hallgrímskirkju. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú er að hvessa hjá okkur og í dag er spáð suðaustan stormi á vesturhelmingi landsins,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. 

Gular viðvaranir eru í gildi víða á landinu í dag.

„Það hefur verið kalt undanfarið, en vindurinn blæs kalda loftinu burt. Það er útlit fyrir enga eða litla úrkomu fyrir hádegi, en síðdegis má búast við slyddu eða rigningu á láglendi með hita 1 til 5 stig. Mögulega getur gert hríð á fjallvegum. Hægari vindur austantil á landinu framan af degi, en síðdegis gengur í strekkings eða allhvassa sunnanátt þar og dálítil snjókoma eða slydda á köflum.“

Í kvöld og í nótt mun lægja, fyrst suðvestantil á landinu.

„Á morgun er síðan útlit fyrir breytilega átt, yfirleitt á bilinu 5-13 m/s. Væntanlega fá flestir landshlutar skammt af úrkomu áður en morgundagurinn er liðinn. Hitinn mjakast niðurávið aftur og því verður úrkoman ýmist rigning eða snjókoma.“

Sérlega hvasst á Reykjanesbraut

Í ábendingu frá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi Veðurvaktarinnar kemur fram að sérlega hvasst verði á Reykjanesbraut þvert á veg með miklu vatnsveðri, verst á milli klukkan tólf á hádegi og fjögur síðdegis.

„Skafrenningur á Hellisheiði og blind hríð um tíma um miðjan daginn. Á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli eru ekki horfur á að lægi að gagni fyrr en eftir kl. 18 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert